Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
8.4.2007 | 12:09
Páska"fríið" er ekki alveg að.......
5.4.2007 | 14:31
Komin í páskafrííí!!!!!!
Jæja þá er loksins páskafríið byrjað hjá okkur öllum og það byrjar ekki vel!! Báðir synirnir á heimilinu eru lagstir í ælupesti og skiptast á að æla. Í augnablikinu hefur sá yngri betur -þ.e. búinn að æla oftar en í gær var það sá eldri - við erum að vona að þetta verði ekki mikið meira en sólarhringspesti hjá þeim!! Karlinn á heimilinu er á fullu að skipta um blöndunartæki á baðinu og gengur bara ágætlega en það er samt ekkert æðislega skemmtilegt að vera vatnslaus meðan strákarnir eru að æla! En við sjáum fram á að þetta sé allt að koma. Og pössum okkur á að vera ekkert að kvarta því að það hefur ekki gefist vel Í gær voru frændur okkar á Selfossi í heimsókn meðan foreldrarnir skelltu sér á blúshátíðina í R.vík og ekki var leiðinleg að hafa þá. Í tilefni dagsins var pöntuð pizza. Prinsinn var alsæll með gestina sína enda voru þeir duglegir að leika við hann. Það var spilaður fótbolti fram eftir kvöldi á pallinum, byggt úr kaplakubbum, teknar ótal myndir og við fræddumst um ótrúlega hluti frá "Ripley". Við vorum að spá í að skella okkur norður um páskana - leggja í ann á morgun og gera kerlingunni illt við með því að baula á glugga í Oddagatinu en þar sem helmingurinn af okkur er ælandi verður ekkert af því - því miður. En við skellum okkur bara fljótlega norður og vonum að litla sys og strákarnir hennar hafi ofan af fyrir gamla settinu á meðan fyrir norðan. Það er meira að segja auka barnabarn á leiðinni norður - því miðlungurinn hans Lumma skellti sér með í páskafrí til ömmu og afa. Var að kjafta við litla bróa í DK og hann stóð úti að grilla í frekar góðu veðri. Erum farin að hlakka mikið til að heimsækja hann. Ég datt inn á hárgreiðsustofu í gær og lét klippa mig - og er þokkalega ánægð en get ekki beðið eftir að fara í sturtu til að skola úr hausnum hlev.... hárgelinu sem var mokað í hárið. Hárið var svo vel mótað að það hefur ekki hreyfst úr stað síðan í gær!!!! Ég bið nú frekar um það standandi í allar áttir -eða bara alveg sleikt niður frekar en með "lyftingu" sem haggast ekki í mörgum vindstigum. Jæja ætli ég hætti ekki að hanga hér og reyni að ná sambandi við sófadýrið sem er að fá ferköntuð augu vegna imbakassaáhorfs - en greyið litla hefur varla gert annað í dag en horfa, æla og drekka eplasafa.
YES, YES, sturtan er komin í gagnið
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.3.2007 | 21:04
Margbreytilegi veður-dagurinn!
Þegar við vorum að dröslast út í morgun -ég og prinsinn þá var hring í okkur af stóru strákunum okkar til að segja frá því að hálkan væri virkilega slæm og umferðin rétt silaðist áfram!! Við létum það lítið á okkur fá og fórum af stað. Allt gekk bara vel þar til sá litli var kominn í öruggt skjól á leikskólanum sínum en þá var mamma hans eitthvað farin að flýta sér of mikið og sletti rassinum svona svakalega á hringtorginu að það hefði nú getað farið illa.......ef einhver hefði verið á ferðinni!! (insk. hér er verið að tala um afturendann á súkkunni -ekki stúlkunni) Ég komst samt klakklaust í vinnuna. Í þau skipti sem ég kíkti út í dag þá snjóaði stöðugt - og þegar ég skrapp á tvo fundi út í bæ var líka snjókoma!! En þegar ég sótti þann litla á leikskólann var komin þessi rjómablíða með sól og alles. Við skelltum okkur heim að ná í reiðhjólin okkar og brunuðum af stað - þar sem við sátum svo í rólegheitum og nutum veðurblíðunnar og vatnssopans sem við tókum með þá er aftur hringt til að segja okkur frá þessu svakalega hagléli sem barði allt að utan hjá þeim elsta!! Mikið vorum við heppin að vera í 20mín. fjarlægð með heiðan himinn yfir okkur og í alla staði frábært veður. Þegar við svo sátum og vorum að borða plokkarann sem var í matinn þá fer aftur að snjóa!! Við erum ekki alveg að skilja þetta! Sérstaklega ekki sá litli því hann er farinn að bíða eftir páskunum og af einhverjum ástæðum heldur hann að þeir komi þegar farið að snjóa!! Hann stökk til við matarborðið og ætlaði að ná í páskaeggið því það var farið að snjóa! Annað hvort var hann að stríða okkur eða að reyna að finna eitthvað betra að borða en plokkarann!!
Þegar prinsinn er fýldur á hann það (of oft) til að nota það sem við í daglegu tali köllum "fýluröddina" Við foreldrarnir þykjumst ekkert skilja hvað hann segir þegar hann er í þeim hamnum. Í gær var hann að spekúlera eitthvað mikið þegar hann var á leið í pössun og segir skyndilega "Mamma, þegar ég nota fýluröddina er það útlenska, ameríska eða íslenska?" Það er von að barnið spyrji!!
25.3.2007 | 22:07
Róleg og næs helgi.
18.3.2007 | 23:08
Helgarfríið okkar!
Helgarfríið byrjaði vel - við vorum ekki lengi að koma okkur á áfangastað. Stoppuðum að vísu á Selfossi til að versla mat - og ekkert smá af mat, aðallega einhverri óhollustu sem við erum að reyna að borða ekki mikið af!!! Við keyrðum í nokkra hringi áður en vð fundum húsið okkar og festum okkur næstum því þrisvar sinnum! þegar við vorum búin að grilla lögðumst við öll fyrir framan imbann og slöppuðum af, litli prinsinn rotaðist alveg um leið - spennan hafði verið mikil. Foreldrarnir nýttu sér tækifærið til að skreppa í pottinn - sátum þar með rauðvínsglas í stórhríð sem truflaði ekki mikið stemmninguna. Þegar húsmóðirin dröslaðist framúr á laugardeginum höfðu þeir feðgar verið á fótum í þó nokkurn tíma vegna tímatökunnar í formúlunni. Áfram snjóaði á laugardeginum og seinni partinn ákváðum við að fara og skoða færðina - við gátum spólað okkur uppá veg í hríðinni - stoppuðum í næstu sjoppu, þar sem fátt var um fólk - nema slatti af vel útbúnum jeppakörlum að tala um færðina! Þegar við héldum aftur í bústaðinn var fennt í okkar slóð en létum það ekki á okkur fá. Þegar við litum út um gluggan stuttu síðar -var aftur fennt í okkar slóð!! .......það fannst okkur verra og ákváðum í skyndi að pakka og drífa okkur í bæinn. Ferðin heim gekk vel - reyndar lélegt skyggni á heiðinni og smá skafrenningur. Eldri sonurinn varð ekkert sérstakelga glaður að sjá okkur því hann var líklega búinn að skipuleggja kvöldið - og við vorum ekki í því plani!! En eftir að hafa "mútað" honum og vini hans með pizzu þá tóku þeir gleði sína að nýju. í dag þegar við vorum að hlusta á fréttirnar um færðina vorum við bara frekar glöð að hafa lagt af stað degi fyrr en áætlað var. Dagurinn í dag nýttist vel til þrifa á húsinu - því þegar við vorum að þrífa bústaðinn fórum við bæði að hugsa "kanski við ættum að gera þetta heima hjá okkur" Við erum þrátt fyrir allt himinsæl með helgina því við slöppuðum virkilega vel af. Það að borða góðan mat, fara í pottinn, lesa og leika við prinsinn gerði okkur öllum virkilega gott. En við ætlum að muna að í næstu sumarbústaðarferð um miðjan vetur væri algjör snilld að fara á jeppanum okkar en EKKI frúarbílnum!!!
Eftir öll þrifin í dag er aftur komin knýjandi þörf mín til að BREYTA heima hjá mér. Ég skil ekki af hverju ég þarf alltaf að vera að því! Þegar ég stóð í stofunni í dag og sagði "ég var að hugsa" var minn fljótur að kalla "strákar, passið ykkur hún vill fara að breyta!" Hann hafði varla sleppt orðinu þegar þeir þrír hurfu gjörsamlega?? Ég verð líklega að fá utanaðkomandi aðstoð að þessu sinni!
16.3.2007 | 16:49
Á leið í helgarfrííí!!
15.3.2007 | 22:03
Lasarusinn!
Jæja nú er loksins farið að sjá fyrir endann á veikindum sonarins. Hjúkkan sem kom í kvöld var alveg sammála móðurinni að ekki væri prinsinn mjög lasinn og mælti með að það þyrfi að fara að skella honum í bað til að þvo af honum veikindin! Eftir baðið leit hann miklu betur út - hreinn og strokinn en ég þori ekki að senda hann í leikskólann á morgun - held honum heima ....alla vega inni fram á mánudag. Við ætlum nú samt að skella okkur í bústað um helgina en halda okkur innan dyra við spilum þá bara meira, föndrum og höfum það næs í stað þess að sitja í pottinum einsog ætlunin var. Þegar ég verð búin að slappa af um helgina með þeim litla og stóra er stefnan tekin á að skreppa á Nordica spa og láta dekra enn betur við sig. Við systurnar ætlum að skella okkur í boði stóra bróður og mágkonu okkar. En ég verð nú að segja að nú er hún litla systir er loksins búin að fá hann Snorra sinn til landsins og vonandi fer hann að verða henni til mikillar aðstoðar við háskólanámið.
Mömmu datt í hug að senda pabba suður til að létta á sunnlensku heimilunum - hann gæti tekið að sér að sjá um veiku strákana sína - en hætti fljótlega við það þegar hún fattaði að hann hefur náttúrulega engan tíma til þess vegna anna við ensku-, og tölvunámskeiða. Karlinn er tekinn uppá því "á gamals aldri" að læra og læra. Ef hann er ekki að því þá er hann í sumarbústaðaferðum með "körlunum". En sú "gamla" situr heima og les- hún er nú alveg agalega ánægð með það.
Ég verð nú að monta mig á því að ég er búin að hjóla mikið á nýja hjólinu mínu - NEI það er EKKI mótorhjól .......en næstum því!! Ég er samt ekki eins dugleg og litli bróðir í DK sem hjólar 33 km. á hverjum degi - en hann hefur nú góða ástæðu því að hann verður að gera það til að geta drukkið allan bjórinn sinn! Ég stefni að því að ná 33 km. á næstu mánuðum - og skrifa það hér til að einhver spyrji mig. Annars var ég eiginlega búin að fá loforð frá öllum sem vissu um hjólið að þeir myndu ekki spyrja mig hvernig gengi en ég sé það núna að það er einmitt það sem þarf!!
12.3.2007 | 19:06
Árinu eldri!!
Það sem hefur gerst frá síðustu færslu er að nú er ég orðin árinu eldri - litla systir líka þannig að aftur eru orðin 10 ár á milli okkar. Á afmælisdaginn þegar ég var að ganga frá eftir matinn birtist hún mamma mín á eldhúsglugganum og ég hélt sem snöggvast að þetta yrði minn síðasti afmælisdagur!! Ég jafnaði mig samt fljótlega en þar sem henni fannst þetta ótrúlega skemmtilegt þá dreif hún sig daginn eftir til litlu systur minnar til að gera henni bilt við með því að birtast á hennar eldhúsglugga á hennar afmælisdegi - mikið skemmti móðir okkar sér vel við að bregða okkur systrum!
Þar sem þau gömlu voru komin í bæinn þá var farið af stað í verslunarleiðangur um allan bæ og svo var borðað með öllu liðinu - c.a. 15 manns og mikið var það nú gaman og ekki var síðra þegar við hittumst í keilu á sunnudeginum. Sá gamli hafði aldrei komið í keilusal en hann rúllaði þessu sunnlenska liði algjörlega upp!! Hann brilleraði sá gamli og nú verður þetta enn eitt af því sem gera þarf í suðurferðum - þ.e. að skella öllu liðinu í keilu. Ég vil ekkert fara nánar útí það hvernig gekk hjá mér - en get þó grobbað mig á því að litli prinsinn minn er verrri í keilu en ég - miðað við stigafjölda!!
Rauðu augun mín jöfnuðu sig algjörlega eftir að ég fékk dropa í þau - en mikið and..... var vont að setja þá í augun. Ég var reyndar orðin svo slæm að ég þurfti að ganga um með sólgleraugu - hugsa að flestir hafi haldið að ég væri að fela glóðarauga - en það verður bara að hafa það.
Litli prinsinn er núna lagstur í eitthvað! - hann var sendur heim í dag af leikskólanum og sefur núna - er frekar slappur, ég er að vona að þetta sé sólarhrings hitavella því við verum svo upptekin um næstu helgi. Aumingja barnið fær engann frið til að leggjast í veikindi. Reyndar var líka afskaplega mikið að gera hjá okkur síðustu tvær helgar en vonandi fer þessu að ljúka.
Í dag fjárfesti fjölskyldan í þrekhjóli - eða ég gerði það - en náttúrulega með hagsmuni allra að leiðarljósi. Ég bið þá sem þekkja til að spyrja ekki hvernig gangi að hjóla - ég mun grobba mig að fyrra bragði - eða ekki nefna það einu orði hvernig mér gangi!! Ég er reyndar í dag búin að hjóla 5 km. í c.a. 15 mín. þannig að þetta er allt á góðu róli Svo er bara að sjá hvað húsbóndinn gerir í kvöld þegar ég verð í jóganu mínu. Vonandi hjólar hann eitthvað - ég stillti hjólinu upp fyrir framan imbakassann til að hafa það á nógu áberandi stað!!
27.2.2007 | 20:55
Rauð augu o.fl.
Ekki er útlitið á mér uppá marga fiska í dag - rauð og þrútin um augun og með kvefdrullu - ég geng því um einsog ég sé út grátin því að augun eru rauð og ég alltaf að sjúga uppí nefið. Var spurð 2 sinnum í dag af góðhjörtuðum vinnufélögum hvort ég hefði verið að gráta!! Þegar sonurinn var sóttur á leikskólann setti ég því upp sólgleraugun áður en ég gekk inn. Þegar við komum heim fengum við okkur tertusneið af tertunni sem ég bakaði í gær í tilefni af því að það var mánudagur í lok febrúar. Eftir góðann bita skelltum við okkur í Dvergabyggð til að skreyta kertakrónu systur minnar svo hún fengi frið til að læra með honum Snorra sínum. Krónan var víst farin að fara svo í taugarnar á henni að hún gat ekki einbeitt sér að neinu. Þegar verkið var rétta hafið kom útkall á mig og yfir-dverginn í Dvergabyggð vegna flugvélar sem var snúið við - meðan við biðum eftir frekari boðum kláraði ég að skreyta og þetta varð svona líka rosalega fínt hjá okkur systrunum - næstar skref hjá okkur er að drýgja dekjurnar með skreytingum í heimahúsum - enda við annálaðar fyrir fallega skreyttu heimilin okkar. Sem betur fer var afturköllun vegna flugvélarinnar - allt gekk vel þannig að við mæðginin drifum okkur heim í pylsupartý - vegna þess að húsbóndinn var að vinna. Eftir matinn snöruðum við í eitt bananabrauð - veit ekki alveg hvað er að gerast með okkur - í þriðja sinn á innan við viku sem við erum að baka - erum að verða einsog litli bróðir -hann Ólafur Silkipungur!!
Eldri sonurinn var að sýna okkur myndir af systur sinni sem voru teknar af því að hún er að taka þátt í fegurðarsamkeppni - og er hún bara nokkuð falleg stúlkan sú. Og er ég ekki frá því að ég sjái systkinasvip með þeim tveim. Sé hann allavega ef ég ímynda mér hann örlítið grennri með sítt dökkt hár - þá er það ekki spurning að svipurinn kemur fram.
Litli bróðir í DK var að segja mér að hann hefði farið hjólandi í vinnuna í snjónum meðan slatti af samstarfsfólkinu hans mætti ekki vegna snjóa - hann sagði líka að færðin væri ábyggilega betri ef þessum litla snjó væri ýtt í skafla við göturnar. En annars er hann vanur svo miklum snjó að það er ekkert að marka hvað honum finnst
Jæja, nú eru augun farin að kvarta vegna dvalar fyrir framan skjáinn - skrifa meira síðar
25.2.2007 | 23:49
Helgin okkar
Um helgina hefur verið nóg að gera hjá húsbóndanum hann hefur verið að laga til í bílskúrnum og farið ófáar ferðirnar í Sorpu. Mikið var ég ánægð að sjá hve grinkaði mikið í skúrnum. Sá að þá yrði mun auðveldara að vinna við breytingarnar á eldhúsin sem standa fyrir dyrum hjá okkur fyrir .....jól.......ekkert svo sem nánar ákveðið hvaða jól það verða!!! Það er samt betra að fá eitthvað á "fyrir jól planið" heldur en á 15 ára áætlunina!! Jæja aftur að bílskúrnum - þegar loksins varð nógu rúmt til að ganga um gólf dreif húsbóndinn sig af stað í bæinn til að ná í enn eitt mótorhjólið og alls konar varahluti!! þannig að nú er (að mínu mati) bílskúrinn orðinn troðfullur! Ef við hefðum ekki keypt þessa fínu ljósakrónu í dag til að setja yfir borðstofuborðið þá hefði líklega fokið í mig - en reyndar er ég frekar umburðarlind gagnvart gullunum hans í bílskúrnum Ef krónan verður ekki komin upp fyrir "jól" þá getur verið að ég muni verða pirruð, jafnvel FREKAR pirruð - en alla vega ekki alveg strax.
Við skoðuðum hundasýningu í dag í Blómavali - hlökkuðum mikið til EN svo voru þetta eiginlega bara litlir hundar - sem við fórum EKKI til að skoða - hámarkið var ísinn í Blómavali sem kostaði bara nokkrar krónur. Ekki samt alveg hámarkið hjá yngri prinsinum þar sem hann hafði ætlað að kaupa sér ís með dýfu - en það var samt hægt að tala hann til - að venju.
Jæja, nú er að skella sér í draumalandið - sá litli löngu kominn þangað - sá í miðið á leiðinni en sá elsti ......hann......er......ENN ÚTÍ SKÚRRRRR!?!?!?!