Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Heimsókn í 1.bekk

Prinsinn fór í dag í heimsókn í 1.bekk. En hann er að byrja í skóla í haust, við foreldrarnir vitum varla hvað hefur gerst! Hvað varð um öll árin sex. Tíminn er farinn að líða hraðar en hann gerði. Prinsinn var ekki mjög spenntur enda búinn að kynna sér allan skólann í vetur þar sem hans leikskóladeild er staðsett í kjallara grunnskólans. Við foreldrarnir sáum í dag hvað það hafði mikla þýðingu því að hann var afar öruggur með sig, það verður þá einu áhyggjuefninu minna í haust þegar alvaran byrjar. Ég hugsa að greyjið sé haldinn lesblindu, en það er nú margt verra en það og Nabban hans er nú illa haldin af henni -en lætur sig ekki muna um háskólanám þannig að það er nú allt hægt. Hann hefur alla vega Nöbbuna sína .....þegar mamman hans fer að tapa sér! Það er náttúrulega ekki öruggt að hann sé lesblindur - en hann er talinn kandidat í það samkv. talmeinafræðingi. Og svo er hann og Nabban hans svo ótrúlega lík, hún er stundum sú eina sem skilur hvað hann er að tala um!! .......margt líkt með skyldum og það allt!!

Við erum allavega ægilega spennt fyrir nýju útikennslustofunni sem verið er að útbúa í skólanum. Það er einnig á áætlun hjá skólanum að allar tómstundir verði á tímanum 14-16 næsta vetur fyrir 1.og 2. bekk og það er ótrúlega flott, vonandi tekst það. Skólinn er líka mikið að brúa bilið milli leikskóla og skóla - af hverju eiga 5-6 ára börn að leika og læra í gegnum leik fram að hausti en setjast þá á stól með blað og blýant á borðinu fyrir framan sig!? Kennaranir í skólanum voru í heimsókn í Danmörku og sáu unga krakka skipuleggja útitónleika, þau reiknuðu út það pláss sem þurfti undir sviðið, hve margir komust á tónleikana, kostnaðinn og annað skipulag í sambandi við þá. Það er náttúrulega ótrúlegur lærdómur í því  þó þau hefðu líklega getað lært þetta allt með dæmum á blaði - en er það eins gaman? Ég sá líka í skóla úti í NY um daginn hvernig skólinn virkaði sem einskonar samfélag. Allar árgangar höfðu ákveðið hlutverk, bréf voru póstlögð hjá einum og þar voru seld heimatilbúin frímerki, allt sem kom fram á prenti var prentað af öðrum árgangi, þriðji árgangurinn sá um að handskrifa allan texta, auglýsingar og annað sem þakti veggi skólans o.fl. spennandi. 

Ég fór á námskeið í dag -var að læra á forrit sem leikskólinn á en það er þannig að hægt er að búa til gagnvirk verkefni á það. Frekar spennandi og nú langar mann að útbúa kennsluefni í lange baner. Forritið er sérstaklega hugsað í sérkennsluna -en það gefur ótrúlega möguleika í vinnu með börnum. Hugsa að ég eigi eftir að liggja yfir því næstu daga til að læra allt sem ég get um það.

Nóg í bili ÁJ


Afmælisbörnin 12.maí

Ég gleymdi alveg að nefna það að í dag eiga tveir í familíunni afmæli. En það er tengdapabbi sem er betur þekktur undir nafninu "kallinn" eða "ævinlega" En kallinn er 80 ára í dag. Við erum mikið búin að reyna að ná í hann en ekkert gengið - kallinn er með slökkt á gemsanum einsog ævinlega! Hann skrapp norður í land í síðustu viku með bróður sínum frá ameríku og mér skilst að þeir ætli sér að skemmta sér og skandalast um allan Skagafjörð þar til um mánaðarmótin!! Ætli hann komi þá ekki suður til að halda áfram að smíða bústaðinn sinn fyrir austan eða skelli sér bara í Borgarfjörðinn og fari að huga að bústaðnum sem hann er að fara að byggja þar. Ekki slæmt fyrir áttræðan mann. Vonandi verður sonur hann eins fjörmikill og duglegur þegar hann verður kominn á sama aldur.

Hinn í familíunni sem á afmæli er móðurbróðir minn - einnig afskaplega ungur í anda þó hann verði fimmtugur að ári. Var með bílinn sinn á bílasýningu í dag. En þar var prinsinn spurður hvernig hann væri skyldur honum. Við sögðum náttúrulega að eigandi þessa flotta rauða bíls væri ömmubróðir hans, þá var ég spurð hvort ég væri ekki systir eigandans......nei ekki kannaðist ég við það (og var frekar móðguð -því ég skyldi það þannig að ég ætti þá að vera amma prinsins!!) ........en líklega hefur sá sem spurði alls ekki talið að eigandi rauða bílsins væri orðinn það fullorðinn að hann væri orðinn ömmubróðir ;)

Svo fórum við í afmælisveislu hjá einum á Hvammstanga í dag - sá átti afmæli 3.maí - algjör snillingur sá ungi maður - og auðvitað frændi minn.

Ég vona að þessir ungu menn hafi átt góðan dag í dag og eigi eftir marga fleiri góða daga.


Norðurferðin!

Við vorum svo bjartsýn familían að þegar við skruppum norður á föstudaginn datt okkur ekki í hug að kíkja á spánna!! Við hefðum betur gert það því að keyra í slabbi og snjókomu, á svelli og í skafrenningi er ekki það besta á sumardekkjunum. Við sem erum nú ekki þekkt fyrir að vera drífandi -þannig að það var eiginlega hin mesta furða að við vorum búin að taka vetrardekkin undan í byrjun maí. Jeppinn varð náttúrulega eftir heima á plani þannig að í stað þess að bruna á fólksbílnum norður - lölluðums við frá Holtavörðuheiði til Akureyrar á c.a. 35!!!.......en við komumst heilu og höldnu og það er náttúrulega aðalmálið.

Fyrir norðan voru farnar nokkrar sundferðir, farið í sveitina í sauðburðinn, enn lengra fram í sveit í lambalæri, heimsókn til Kóngsins og á leiðinni suður var komið við í afmæli á Hvammstanga, eftirlegukind tekin þar með suður og endað í Kópavoginum á sýningu hjá Kvartmílublúbbnum. Prinsinn fékk að keyra út úr höllinni í Dodge Charger - og það var EKKI leiðinlegt - líklega það sem stendur upp úr ferðinni norður.

Húsið var í þokkalegu standi eftir að hafa verið í höndum unga mannsins í forstofuherberginu. Hann át víst egg í öll mál....harðsoðin egg, linsoðin egg, omeletta, spæld egg.......og ég man ekki meira af upptalningunni sem ég fékk. Þegar gengið var á hann af hverju eggin hefði verið í hvert mál þá kom svarið um hæl "eggin voru við það að renna út" Okkur grunar hins vegar að eldamennsku kunnáttan sé ekki mikið meiri -en nokkrar útfærslur af eggjum!

sæl að sinni


Febrúar bloggið!

Ég verð að segja að ég er nú freeekar löt að skrifa hér inn. Get alla vega sagt ykkur núna að það er óhætt að spyrja hvernig mér gekk í prófunum - og jafnvel að spyrja hvernig ritgerðarskrif ganga hjá mér - en ég stefni að því að skila henni í vor og er í heimildasöfnun fyrir það meistaraverk sem ég og ein til gerum saman.

Á þessari önn í skólanum fékk ég að velja mér 5 einingar - svo ég valdi mér 6 einingar, frekar skemmtilegt að fá að gera það - bara einn skylduáfangi (lokaritgerðin). Ég valdi mér ákaflega skemmtilega kúrsa en fæ nú oft skrítin augnaráð frá fólki þegar ég fer að segja nánar frá þeim - þannig að hér mun ég ekki fara nánar útí það!

Núna er prinsinn á 3.ja degi í veikindum en við stefnum á að mæta á morgun í leikskólana okkar. Hann er enn ánægður með "rokkaraklippinguna" sína og það þarf sko að greiða sér á morgnana áður en lagt er af stað. Verst að þegar kamburinn er kominn þá er ekki til að tala um að setja húfu á kollinn. En þegar hann er sóttur í leikskólann sést vel að húfan hefur verið notuð því að þó hárgelið sé "tunnel prúff" þá er kamburinn lagstur í lok dags.

síjú!


Hugleiðingar um jólagjafirnar!

Ég er oft að hugsa um hvort jólagjafir sem gefnar eru geti valdið misskilningi? Og hvort jólagjafir sem gefnar eru með ákveðið í huga geti valdið þeim misskilningi að þiggjandinn líti á þær á annan hátt en gefandinn hafði í huga! Ég fór að hugsa mikið um þetta þegar ég stóð þriðju jólin í röð að kaupa úr handa karlkvölinni minni - ég vona ENN að hann fari að fylgjast betur með tímanum - hjá honum er klukkutíma bið ekki mikið - en þegar verið er að bíða með matinn í klukkutíma þá getur það verið ansi lengi. Hann varð himinsæll með fína úrið - ætlar að nota það spari -og finnst gaman að fá svona fallegan "skartgrip" frá mér!

Bróðir minn einn fékk blóðþrýstingsmæli og hlaupagalla frá sinni konu - Er hann ekki orðinn svo feitur að hann þarf að fara út að hlaupa og passa þrýstinginn? Nei, konan hans elskar hann svo mikið að hún vill að hann lifi vel og lengi með sér og strákunum þeirra.

Annar bróðir minn fékk m.a. ilmvatn - er svona mikil svitalykt af honum? Af hverju fékk hann ilm frá sinni konu? Það er alltaf góð lykt af honum.

Pabbi minn sem eldar mikið fékk matreiðslubók frá mér - hann "slattar og slumpar." Er ég ekki að benda honum á að nota almennilegar uppskriftir - nei, ég veit að hann á eftir að lesa bókina og um leið að þróa sinn stíl við matreiðslu enn frekar - hann mun aldrei fara eftir uppskrift - en með bókinni á hann eftir að fá góðar hugmyndir af enn betri réttum (auk þess sem honum mun líklega finnast gaman að skoða myndirnar af Nigellu sinni)

ahhh - ég er bara svona eitthvað að pæla - ég fékk nú handklæði og sápur - líklega betra að huga að sturtuferðum! Eða þá njóta þess að fara í sturtu með nýja mjúka handklæðinu okkar og nota fínu sápurnar með. Ég er alltaf að föndra eyrnalokka sem ég geng með flesta daga vikunnar - og svo fékk ég eyrnalokka í jólagjöf! Ætti ég kanski að hætta þessu hobbýi mínu? Eru þeir ekki eins flottir og ég held? Eða fékk ég eyrnalokka vegna þess að ég er alltaf með lokka og alltaf að skipta þeim út - sem sagt með mikinn áhuga á eyrnalokkum.

Nú tel ég að syfja og leti séu alveg að fara með mig - veit ekki alveg hvaða rugl ég er að bulla hér!!!


Gleðilegt nýtt ár!

Við familían erum búin að eiga yndisleg jól og sumarfríinu var vel varið með því að taka það á milli jóla og nýjárs. Ég er reyndar á því núna eftir gott frí að best væri að taka alveg frí á milli jóla! EN þar sem það gengur víst ekki þá er ég glöð með þetta frí mitt núna. Prinsinn er búinn að vera í fríi líka þannig að við tvö höfum haft það glimrandi gott. Ég verð að vinna tvo daga þessa vikuna - en er allt í einu að muna eftir því að prinsinn verður í fríi alla vikuna! ÚPPS -hvað gera bændur nú? .....það hlýtur að reddast.

Fyrsti dagurinn á nýju ár var okkur góður - systir pappa kom í heimsókn með manni og dóttur - þau hafa eytt nokkrum dögum hér fyrir sunnan en eru á leið austur á land - það var óvænt ánægja að fá þau í heimsókn í dag. Litla sys kom svo eftir brennuna með alla strákana sína í hátíðarkjúlla sem bráðnaði í munni - á borðum var einnig hreindýrakjöt beint frá Sömum í Svíþjóð og svínakjöt. Í eftirrétt var heimalagaður "mömmuís" með suðusúkkulaði og ekki sveik hann frekar en fyrri daginn. Má ekki gleyma rauðkálinu úr Magranum sem frændi á Resinu gerði handa mér - mágur minn hafði á orði að þessi uppskrift yrði að fara í matreiðslubók Magranna sem er í vinnslu.

Um áramótin eyddum við góðu kvöldi með vinum okkar uppí Hvalfirði en þar sem eldri sonurinn var orðinn virkilega æstur í að koma sér heim þá létum við undan og laumuðum okkur heim eftir skaupið. Fjölskyldan sat í bíl rétt að koma í bæinn þegar nýja árið gekk í garð. Það var alls ekki slæmt þar sem við vorum þó öll saman. Prinsinn vildi endilega skjóta upp því rokið í Hvalfirði gerði það að verkum að ekki þótti ráðlegt að skjóta neinu upp þar - flugeldarnir hefði líklega alls ekki tekið stefnuna upp - heldur á haf út. Við tókum því á það ráð að skella okkur til litlu sys og co. og var sem betur fer tekið fagnandi þar -einsog alltaf. Heim komum við ekki fyrr en um þrjúleytið - en þá sátu þar að "sumbli" eldri sonurinn og vinur hans. Dáist að ungu mönnunum þar sem þeir voru nú ekki lengi að bjarga sér þegar svengdin kallaði - fengu sér AB-mjólk og graflaxinn sem átti að vera forréttur á nýjársdag!! Ungu mennirnir ákváðu eftir að við komum heim að skella sér í smá gönguferð - rétt áður en karlinn gekk til náða var hringt í hann og hann beðinn um að koma ungu göngugörpunum til bjargar þar sem þeir stóðu undir húsvegg utar í hverfinu - blautari að utan en innan!! Hann skellti sér drengjunum til bjargar, með rokinu og rigningunna hvarf víst partýfílingurinn út í veður og vind þannig að allir fóru heim að sofa -sem var bara gott og vel.

Prófin gengu víst ekki alveg eins illa og ég taldi -á reyndar eftir að fá út úr því prófi sem ég kvíði mest fyrir - vona að ég fái einhverja punkta fyrir viðleitni! Fá svo ekki allir 1 fyrir að mæta? Fjölskyldan hefur verið ákaflega varkár og vinsamleg = ekki spurt mikið hvernig mér hafi gengið - ég tek því alla vega þannig -frekar en að áhugaleysi á námi mínu liggi á bakvið það!!

Bless í bili

 


long time!!

Já, ég sé að það er langt síðan ég skrifaði síðast - í byrjun október og er þá að segja fá því hve mikið er að gera í skólanum. Ég hef eiginlega ekki átt mér neitt líf fyrir utan vinnu og skóla í haust. Skrítið að manni skyldi detta í hug að bregða sér í smá uppfærlsu! Ég hef haft ákaflega gott og gaman af náminu. Sérstaklega hef ég haft gaman að öllum verkefnunum og gengið þokkalega vel með þau. Í síðustu viku voru próf og GUÐ MINN GÓÐUR - ég held ég hafi verið alveg "úti að skíta" -veit í raun ekki undir hvaða próf ég var að lesa - alla vega ekki það sem ég fór í s.l. föstudag. En þetta er þá e.t.v. bara eitthvað sem ég verð að endurskoða þ.e. námið. Það er alla vega gaman að hafa prófað að skella sér í skólann ........en......framhaldið er ekki bjart miðað við frammistöðuna í prófinu. Ég er eiginlega enn í SJOKKI - eins með tvær samstarfskonur mínar!!!  Vil endilega biðja vini og vandamenn að ganga ekki hart að mér ef ég fer undan í flæmingi með svör við hvernig mér hafi gengið í prófunum! En nú er stefnan að sinna karlkvölinni og strákunum mínum og auðvitað sjálfri mér líka. Byrja á að fara í fótsnyrtingu á morgun með litlu sys. Það er hann stóri bróðir okkar og hans ágæta kona sem bjóða okkur. Og eftir þetta haust er ekki vanþörf á smá dekri fyrir okkur systurnar. Prinsinn er á fullu að æfa helgileik sem verður "frumsýndur" núna 12.des. Mikið hlakka ég til að sjá hann. Hlutverk hans er fjárhirðir nr.3. Eldri sonurinn er í próflestri og "gengur bara vel" einsog alltaf þegar hann er spurður. Húsbóndinn kom óvenju snemma heim í kvöld og ekki var ástæðan góð - hann fékk lokið af pappagám í hausinn og skartar nú þessari miklu kúlu á kollinum!

bless í bili 


Mikið að gera þessa dagana!

Hvernig er það með haustið (veturinn!!) það er alltaf svo svakalega mikið að gera hjá mér að ég fæ netta andarteppu annað slagið.  Okei - ég ákvað sjálf að skella mér í skólann - og þar er mikið að gera, í rauninni miklu meira en ég bjóst við.  Litla sys sagði að þetta væri nú ekki mikið og ég trúði henni - enda kæmist hún ekki langt í KHÍ án hans "Snorra" síns til að lesa fyrir sig skólabækurnar. -ég er ekki lesblind, get skrifað þokkalega en er samt stundum að drukkna í náminu. En það er ekki bara námið - það er einsog ALLT skelli á manni núna, námskeið, fundir, "hittingur".  Ég er kanski bara orðin svona værukær eftir mitt langa hlé frá námi - og ritvélin sem ég notaði þá er ekki nógu góð í náminu núna - samt var það rafmagnsritvél!!  Ég er samt alltaf að læra betur og betur á WebCT-ið og það munar nú um það.

í dag fóru við fjölskyldan saman til tannlæknis - fyrst fór ég og einsog venjulega voru engar holur Grin Þá var komið að prinsinum - það vor teknar myndir af tönnunum hans og tannlæknirinn sýndi okkur að prinsinn væri kominn með 6 ára jaxl - sá varð nú stoltur enda ekki NEMA 5 ára!! og auðvitað voru engar holur hjá honum.  Svo var komið að blessaðri karlkvölinni minni og viti menn -hann var með HOLU!!Devil  Tannsi lagaði það snögglega og við prinsinn fengum að horfa á - ægilega spennandi.  Þegar við svo komum heim og stóri bróðir spurði þann stutta hvar hann hefði verið þá svaraði prinsinn - "hjá tannÁLFINUM, hann heitir afi Guðjón"!!!!!!!!  Ég verð að segja að það eru alltaf að verða fleiri vísbendingar á vegi mínum um það að lesblindan í familíunni hafi skotið rótum hjá fjölskyldunni á Gíslabala!!! Það verður þó að segjast honum til vorkunnar að tannsi er þekktur sem afi Guðjón í fjölskyldunni þar sem hann er tengdapabbi litlu sys.

Og amma lillaklifurmús - ef þú lest þetta - þá gleður það efllaust þitt gamla hjarta að prinsinn fékk tár í augun á laugardaginn þegar við vorum að tala um ykkur og sagði - "Mamma, þú leyfir mér ALDREI að hitta ömmu lilluklifurmús og afa á Akureyri"!!!

 

  


Haustverkin byrjuð!!

Jæja, nú er orðið langt síðan síðasta færsla var skráð en það er vega þess að ég er alveg föst í náminu mínu.  Er svona rétt farin að skilja allt þetta "fjarnámsumhverfi"  það er furðulegt að setjast á skólabekk við tölvuna!!  En ég held að ég sé farin að skilja flest(?)  Það var samt gott að hitta nokkrar bekkjarsystur í dag og sjá að ég er ekki sú eina sem er ekki með allt alveg á hreinu.  Prinsinn er á fullu í gítarnáminu sínu og ég veit ekkert hvernig gengur - honum finnst alla vega gaman.  Svo var hann að byrja á Tarsan námskeiði í Egilshöllinni í dag og fannst freeeekar mikið gaman.  Hann hitti félaga sinn af leikskólanum þannig að það urðu fagnaðarfundir - enda þeir ekki sést síðan á fimmtudag!!  Eldri sonurinn er á fullu í skólanum sínum og farinn að vinna með í Bónus - sagði við ömmu sína að annars hefði hann ekki efni á að vera í skóla í vetur - ég er ekki alveg að skilja hvað hann er dýr í rekstri þar sem hann býr frítt, borðar frítt, fær frítt í srætó o.sv.fr.!!!!!  Ekki er hann heldur að kaupa sér föt - þrátt fyrir margar óskir um það .......auðvitað skilur maður hann svo sem.  Hann tilkynnti um daginn að hann ætli að vera grænmetisæta í eina viku ásamt vini sínum - ég hlakka mikið til að sjá hvernig það gengur.  Kanski þetta verði svo gott og gaman að hann haldi áfram?  Karlinn er núna fyrir austan og verður þar í nótt þannig að við hin erum í snakk og nammi stuði.  Það er aldrei hægt að fá hann með í það.  Hann hringdi í dag til að segja okkur frá því að það væri bylur og skyggni slæmt!!  Brbrbrbrbrrrr er veturinn kominn?

Litla sys og strákarnir hennar skruppu norður um helgina að hitta gamla settið - skildist að karlinn hennar hafi verið æstari í að hitta tengdó en hún að hitta foreldra sína Whistling .......ég....hugsa að það sé kanski frekar leiðin norður en það að nenna ekki að hitta þau gömlu.  En auðvitað er það samt gott og gaman þegar maður er kominn á staðinn.  Mamma var einsog tengdasonurinn ánægð að þau komu því hún fékk að sofa með tvo ömmu stráka með sér í rúminu í nótt meðan karlinn var á næturvakt.  Bróðir mömmu skrapp líka norður um helgina með strákana sína og bætti einum "hvammstangara" við á leiðinni þannig að fjörið er í hámarki í "doddagatinu" þessa helgina.  Það liggur við að ég og prinisnum langi meira norður í fjörið en að fara að borða allt nammið sem við keyptum áðan!!

 

 

 


Komin í bæinn :)

Jæja þá erum við búin að vísitera "Agureyris".  Eyddum þar góðum dögum í íbúðinni sem Kóngurinn á þar.  Veðurguðirnir voru reyndar ekki mikið að leika við okkur en það var bara allt i lagi því við fórum ekki til að hitta þá!  Við enduðum dvölina á fjölskyldumóti á þeim stað sem í daglegu tali er nefnt Hraunið - vorum sem sagt á Hrauninu.......ekki því litla þó!!  Tjöldin ætluðu að fjúka en þar sem ættingjar okkar eru rammir mjög að afli þá tókst að bjarga þeim - það var skondin sjón að sjá fólkið ganga með 4 samsett tjöld yfir háft túnið í var hjá bústaðnum - ég náttúrulega stóð bara og tók myndir af þessu meðan unnustinn hámaði í sig ís úr sveitinni!!!  Við erum ekkert mikið til að hlaupa til án þess að athuga málið vel og leeeeeengi.

Litli prinsinn er í essinu sínu eftir allt þetta frí -hann hefur reyndar verið að mæta á leikskólann þessa vikuna til að fara í gítartíma - og það gengur bara þokkalega hjá honum hann er búinn að læra tvö grip og spilað ein fjögur lög!!  Mamma hans var svo hrifin af þessu hjá honum að ég dreif fram gítarinn minn úr ruslakompunni sem á að vera herbergi eldri sonarins - mikið varð nú húsbóndinn glaður þegar ég gekk með gripinn inn í stofu - hann bjóst við að heyra undurfagra tónlist en ...........því miður fékk hann ekkert að heyra því að frúina (ég!) gleymdi að nú um stundir er gítarinn minn bara fimm strengja!!! 

Nú styttist í að sumarfríinu ljúki - og skólinn byrji - það er skrítin hugsun að setjast á skólabekk - og ekki varð kvíðinn minni þegar vinkona mín benti mér á að það væri best fyrir mig að áætla c.a. 2 tíma á dag í heimanám!! Ég ætlaði eiginlega ekki að eyða svo miklum tíma í þetta - en ég hugsa nú að ég taki hana mér til fyrirmyndar og eyði SMÁ tíma í námið.

Nú er bóndinn að kaupa hillur í vaskahúsið - ég er eitthvað að tapa mér yfir kaosinu þar inni - líklega má henda meira en helmingnum sem þar er ........en ........ég bara get ekki hent neinu!!  Þetta er ættgengur and..... ég þekki ekki neitt annað en að fólk sitji sem lengst á "gullinu" sínu.  Jæja - kanski ég haldi áfram með heimilisstörfin - á bara eftir að endurskipuleggja vaskahúsið, laga til í eldhúsinu, setja í vél, hengja upp, ryksuga, elda mat, bera á pallinn og vökva blómin - og ég segi það enn og aftur - það er GOTT að eiga ekki sjónvarp Grin


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband