Euro-fiðringurinn enn á fullu hér!

Prinsinn pikkaði vin sinn upp á leiðinni heim í dag, þeir undu sér við að hlusta á Eurovision-lög, leika sér í legó og í tölvuleik með mörgæsum. Það var frekar skemmtilegt að heyra þá tvo ræða úrslitin sonur minn sagði "Lagið númer tvö átti að vinna, ekki konan í hvíta kjólnum, hennar lag var ekki flott" -vinur hans leit hissa upp úr kakóglasinu við þessar yfirlýsingu og sagði "hva, maður heldur auðvitað með laginu sem vann!" 

Annað skemmtilegt atvik varð um kvöldmatarleytið þegar ég var rétt að setja matinn á borðið og vinurinn tilbúinn að fara að borða með prinsinum bankaði pabbi hans og vilda strák heim. Sá var ekki alveg á því, honum laaaangaði svo að borða þennan góða mat sem var hér á borðum því mamma hans er víst "aldrei með svona góðan mat, bara venjulegan vondan mat" - svo notuð séu hans orð. Pabba hans tókst nú að ginna hann heim, því að einhver var í heimsókn og þá er víst alltaf góður matur Tounge. Þegar vinurinn var farinn var sest að borðum hér og mikið var nú kjötbúðingurinn góður Wink......reyndar er þetta nú ekki daglega á borðum hér en eftir að eldavélinni var hent og við ENN að bíða eftir nýja helluborðinu - þá....einhvernveginn....er ekki eins gaman að elda!!! (við erum eiginlega orðin hálf leið á ofnsteiktum mat og köldum sósum).

Kveð að sinni


Endursýning!

Ekki voru úrslit Eurovision alveg að falla í kramið hjá prinsinum, en Spiderman á eftir, bætti eitthvað skapið - reyndar var hann frekar þreyttur á móður sinni því hún var alltaf að segja honum að halda fyrir augun - reyndar endaði þetta með því að drengurinn var orðinn svo þreyttur að hann fór bara og lagði sig.....notaði tækifærið og sofnaði uppí hjá pabba sínum en það er eitthvað sem gerist ekki of oft ...... að hans mati! Við vorum svo vakin upp í morgun með miklum gleðilátum - keppnin var endursýnd og auðvitað þurftum við að horfa á hana aftur GetLost 

Dagurinn fór að mestu í sundferð þeirra feðga með vini, á meðan notaði ég tækifærið og tók allt aðeins til milli þess sem ég hringdi í afmælisbörn dagsins Tounge 

Kveð að sinni


Eurovision-"hitinn" greip prinsinn!

Prinsinn er gjörsamlega heillaður af Eurovisionkeppninni, við "snökkuðum" okkur upp fyrir kvöldið því það eru fleiri stórviðburðir í imbanum en jafn mikið var beðið eftir Spaugstofunni og svo er auðvitað Spiderman í kvöld, eftir keppnina. Prinsinn kaus svo sitt lag, en hann vildi helst kjósa Pál Óskar (goðið sitt) en viðurkenndi að það væri líklega ekki hægt að kjósa þann sem ekki syngur.....en mikið langar honum á Nasa í kvöld! .........ætli aldurstakmarkið sé meira en 6 ára? Hann er alsæll núna að hafa fengið að kjósa Ingó og Jógvan (við földum svo gemsana okkar)...núna bíður hann spenntur!!

Í dag voru hér bakaðar tvær súkkulaðikökur og skreyttar eftir kúnstarinnar reglum. Sonurinn fékk svo einn vin sinn í heimsókn. Honum til mikillar gleði komu svo vinir hans ofan úr Hvalfirði og kíktu á okkur, fórum með þeim í Gerðuberg, ísbúð og í Krónuna :) mikið gaman og mikið fjör. Við mæðurnar vorum samt eitthvað í rólega gírnum líklega vegna þess að við átum yfir okkur í saumaklúbbnum í gær ....fyrir utan hvað við prjónuðum mikið og leeeengi fram eftir nóttu.

Jæja nú verð ég að fara að sinna prinsinum og Páli Óskari í sjónvarpinu ;)


....Jón....er kominn heim!!

Jæja, útlegð stóra stráksins varði ekki lengi, grasið er víst ekkert grænna þarna hinu megin við fjallið! Hann fór heim um daginn ......aðallega vegna þess að eitthvert ójafnvægi var komið á samkomulag milli......mín.....held ég og hans! Veit samt ekki alveg hvað það var. Hvað um það, hann ákvað að skreppa heim til sín þ.e. austur á Hótel mömmu......gefa Hótel pabba smá frííí. Hann kvaddi okkur með því að segja: ´"ég ætla að leyfa ykkur að hugsa málið og hringi um helgina"........og við lágum í kasti!! LoL  Við höfðum nefnilega upplifað það að það væri HANN sem væri vandamálið - en þá hafði hann akkúrat talið að það værum VIÐ sem værum vandamálið.........en.......semsagt eftir góðan tíma, við búin að hugsa málið og svona, þá ákvað hann að snúa til okkar á ný - þegar hann rak inn nefið spurði hann hvort hann mætti gista eina nótt .......hann er hér enn!!  Svo sem engum til ama Wink 

Prinsinn hefur tekið þá ákvörðun að fara eftir skóla til ömmu og afa í stað þess að ganga í vinnuna til mín eða heim til Nöbbunnar sinnar og bíða í c.a. 40 mín. það eru margar ásæður fyrir þessari ákvörðun hans og hér eru nokkrar þeirra:

  • Það er styttra fyrir hann að ganga til ömmu en á hina staðina
  • Amma á alltaf súkkulaði.....reyndar eftir eina brauðsneið
  • Afi nennir alltaf að spila lönguvitleysu
  • Þau eiga stóóóran playmobil-dótakassa
  • Hann þarf ALDREI að lesa hjá þeim
  • Svo er amma svo skemmtileg

Ég er að vona að ég geri ekki alveg út af við þau með þessu, en öllum virðist vel líka, alla vega ennþá!!

Kveð að sinni


Þrusu flotti sófinn

Nú sit ég hér í fína nýja sófanum mínum og get ekki beðið eftir að næturgestir komi til að prófa hann. Það er alla vega fínt að sitja í honum og hann kemur vel út. Við erum ekki enn farin að sakna gömlu stólanna sem voru áður þó við höfum átt þá í c.a. 15 ár (og við fengum þá c.a. 15 ára!). Vonandi verður einhver glaður næstu daga í Góða hirðinum þegar hann gengur út með stólana okkar Wink ......þeir eru reyndar alveg þokkalegir - bara ekki gott að sofa í þeim.

Foreldraviðtalið gekk alveg þokkalega hjá okkur í morgun - fengum að heyra að sonur okkar væri hress og skemmtilegur drengur, sem við vissum. Hann lætur auðveldlega trufla sig og á víst ekki erfitt með að trufla aðra!! En sem betur fer segist hann vera að æfa sig í að hætta því - og við vonum það besta. Okkur finnst að sumu leyti undarlegt að fara með honum í viðtalið og heyra kennarann tala við hann einsog fullorðinn mann og svo áttum við að spyrja kennarann um prinsinn? Ég er alla vega á því að kanski ætti að breyta nafni viðtalsins í fjölskylduviðtal og hafa annað foreldraviðtal. Mér líður alla vega ekki vel með að spyrja mikið út í t.d. hegðan, segja frá líðan hans og fá svör við spurningum sem hann þarf ekkert að vita um né heyra af.....ég er kanski svona gamaldags!

kveð að sinni

p.s. vantar þig nokkuð gistingu?


...tekur engan enda!!

Við hjónaleysin erum heldur betur dottin í eyðslugírinn. Í dag fórum við og keyptum okkur eitt stykki svefnsófa í IKEA - síðasti dagur útsölunnar þar. Við erum nefnilega að fá til okkar gesti um mánaðarmótin febrúar/mars. Við sjáum fram á að lána þeim herbergið okkar og erum bara alls ekki tilbúin að liggja á þeim dýnum sem við höfum hingað til lánað okkar gestum Devil he he - en auðvitað geta þá okkar gestir séð fram á betri tíð með góðri dýnu hjá okkur í stað þessarar l"oftdýnu" sem hingað til hefur verið blásin upp ......upp á von og óvon að loftið leki ekki út!!

Á leiðinni heim datt okkur í hug að plata tengdamömmu með okkur heim í smá silung - og okkur til mikillar gleði þáði hún boðið, enda karlinn fyrir norðan, og var hún ægilega ánægð með matinn. Það var nú samt frekar skondið að sjá til okkar því að bæði ég og karlkvölin erum ekki sérlega dugleg við að borða roð - þannig að við bæði laumuðum því á diskinn hjá tengdó henni til mikillar gleði. Enda sagði hún okkur frá því að þegar hún var lítil þá settu þau systkinin roð á kolaleldavélina og borðuðu það svo einsog sælgæti ......namm....nammm....eða not!! LoL

Á morgun byrjar dagurinn á því að við förum í foreldraviðtal með unga prinsinum okkar tilhlökkun okkar er mikil, vona að þetta verði afskaplega jákvæð og góð byrjun á vikunni Wink Hann er reyndar búinn að koma með vitnisburð með sér heim og var sá bara þokkalega fínn - en að venju erum við foreldrarnir með einhverjar spurningar til kennarans - vonumst bara til að muna þær allar!

sæl að sinni


Kaupæði runnið á okkur!

Nú þegar allir eru að draga úr innkaupum erum við allt í einu farin að eyða peningunum okkar, erum búin síðustu daga að kaupa flísar á bað og eldhús og ljós í stofuna. Húsbóndinn segir að það sé vegna þess að loksins komist hann að hillunum. Vinkona okkar sem er gift hagfræðingi segir að það sé vegna þess að eitt af einkennum kreppunnar sé að fólk fari að eyða peningunum sínum til að plata sjálft sig = ég eyði peningum. það er engin kreppa hjá mér! Woundering .....við vorum nú kanski ekki að versla mikið af flísum né MÖRG ljós.... En svo við snúum okkur að aðalmálinu þá vita þeir sem þekkja okkur að ýmislegt safnast í bílskúrinn okkar - eða réttara sagt hann er einskonar stoppistöð ýmissa hluta sem fara eiga á ákveðinn stað hér í húsinu - hér er ég að tala um t.d. gashelluborðið mitt, viftuna mína, slatti af parketi, ljós og flísar - og má ég minna á að við vorum að kaupa LJÓS og FLÍSAR!!! En einsog ég sagði svo glöð við karlkvölina mína þegar hann bar flísarnar inn í bílskúrinn í gær - "Heyrðu, við setjum bara upp bílskúrssölu er illa fer hjá okkur" .....eiginlega var verst hve vel hann tók þessu! ......en sem betur fer þá öðlast ég alltaf nýja trú á honum í hvert sinn sem hann segir mér frá fyrirhuguðum framkvæmdum Devil .....æj....hann er bara alltaf allur af vilja gerður, þessi elska.

 Í dag fór prinsinn heim með vini sínum, sá á heima í "Rennibraut 11" þegar ég gekk þangað í allri hálkunni var ég náttúrulega með mína MANNBRODDA og ferðin gekk afar vel. Prinsinn vildi endilega vera með þá á heimleiðinni og hljóp eftir svellbunkunum meðan auminginn ég laumaðist áfram hangandi í runnum og á girðingum. Á miðri leið sá hann samt aumur á mömmu sinni....eða....þá að hann hafi fengið "góða hugmynd" því seinni hlutann þá var ég með broddana á fótunum og dró hann á eftir mér! Ekki fannst honum það leiðinlegt.

Sæl að sinni


Gamla settið farið!!

Verð að viðurkenna að ég sakna þeirra örlítið, það er nú voðalega notalegt að hafa þau hér í bænum. Eftir allan fróðleikinn um grillpönnur fra karli föður mínum skellti tengdasonurinn sér í bæinn og keypti eina slíka, ekki var verra að hún var á góðum afslætti. Hann kom svo við í Nóatúni og keypti kindalundir......þeim var skellt á pönnuna og mmmmmm við erum enn slefandi!! Meira að segja þá borðaði prinsinn slatta! Ég er strax farin að hugsa um hvað ég get haft í matinn á morgun sem passar á pönnuna.

Þegar húsbóndinn kom heim með pönnuna sagði hann: "Ég skil nú ekki alveg af hverju ég keypti þessa pönnu, hún er eiginlega algjörlega óþörf".....í miðri máltíð þegar hann gat vart mælt vegna nautnar - þá stundi hann "Þessi panna er algjör snilld og alveg þess virði að kaupa hana" !?!? Þannig að við hér á Gíslabala mælum algjörlega með grillpönnum, enda er aðeins of kalt til að standa úti að grilla þó svo við séum frekar dugleg við það.

Í dag þegar mamma var hér þá sýndi ég henni myndir sem tengdamamma og tengdapabbi gáfu okkur um jólin. En það er mynd af hvoru fyrir sig með systkinum sínum. Á mynd tengdamömmu eru hún og hennar 13 systkini og á hans mynd er hann með sínum 12 systkinum - ég sé þessar myndir alveg fyrir mér á veggnum við hliðina á mynd af mömmu og bróður hennar Wink. . . . .  svo þarf ég að taka nokkrar myndir af gilsbakkarasystkinum af heimasíðunni þeirra til að við getum stolt sýnt öllum myndir af þessu falleg fólki sem að okkur stendur Tounge

Kveð að sinni


Mamma og pabbi í bænum

Loksins ákváðu þau að drífa sig suður að kíkja á nýjasta strákinn sinn - held þau hafi verið farin að taka það alvarlega þegar verið var að grínast með að hann væri farinn að ganga.....og að óðum styttist í ferminguna ;)

Vegna komu þessara gesta hingað suður var slegið til veislu hjá litlu sys og þangað mætti allt liðið héðan af höfuðborgarsvæðinu auk þess sem nokkrir Selfyssingar kíktu við og síðar um kvöldið kom nýjasti bróðir minn - hann Júníor með vinkonu sína -líklega til að kynna hana fyrir tilvonandi tengdaforeldrum! Gamla settið bauð uppá frábæra súpu handa liðinu en dætur og tengdadóttir buðu uppá eftirréttinn. Okkar framlag var skúffukaka með sykurpúðum, hún er þannig að í lok baksturstímanns eru sykurmolar settir ofaná þá verða þeir mjúkir og fá á sig gylltan blæ. Kakan leit vel út......en það hefði verið betra að vita að þegar mjúkir sykurpúðar eru á köku er afar erfitt að skera hana - reynið að skera í sundur stóra tyggjóklessu sem festist við hnífinn!! Hún var samt góð. 

Til að kóróna kvöldið var horft á rúmlega og tæplega 20 ára gömul HEIMATILBÚIN áramótaskaup fjölskyldunnar! Mikið var gaman að sjá hve ung og falleg við vorum einu sinni ...nú erum við náttúrulega bara falleg! Verð nú samt að viðurkenna að þegar farið var að ruglast á mér og yngsta bróður mínum þá brosti ég nú ekki beint mikið....en þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem fólk tekur feil á okkur. 

Til að stytta gamla settinu stundirnar skrapp ég með þeim í verslunarferð enda þurfti karl faðir minn að kaupa sér töfrasprota - ómissandi tæki í eldhúsið, frúin, móðir mín býr nefnilega svo vel að hann er afar áhugasamur um matargerð og sér alfarið um hana á heimilinu  (þ.e. matargerðina, kerlingin getur enn séð um sig Tounge) - vildi svo mikið óska þess að þetta smitaðist yfir á alla vega einn tengdasoninn!! Svo býr karlinn bara til svo rosalega góðan mat. Í ferðinni skoðaði ég mikið grillpönnur með föður mínum og hlustaði í andakt á hann útlista kostum og göllum þeirra. Mikið held ég að ég verði að draga minn karl með mér í Húsasmiðjuna og næla mér í pönnu þar sem mig dreymir enn um Wink

Draumalandið kallar - ég hafði nefnilega saumaklúbb hjá mér í gær og það var setið þar til laaaangt gengið í fjögur!!

 

 


Hér ríkir BARA gleði :)

Ég verð nú bara að setja inn aðra færslu því að nú ríkir mikil gleði hjá okkur sem enn eru vakandi í húsinu. Það varð nefnilega uppi fótur og fit í morgun þegar frúin gekk inn í eldhús og sá að kleinupoki húsbóndans var með STÓRU gati og búið að éta stóran part af kleinunum! Einhver minni göt voru líka á pokanum og vaknaði strax sá grunur að um mús væri að ræða...reyndar kanski frekar mýs!! Því að ein lítil mús ætti ekki að geta innbyrgt svo mikið magn af kleinum. Frúin tók sig strax til, bankaði í alla skápa, kíkti undir innréttinguna og sópaði vel allt gólfið í leit að músarskít sem samkv. litlu sys átti að vera einsog langt kúmen en samkv. Klifurmúsinni átti skíturinn að vera einsog kúmen eða jafnvel kaffikorgur! Hvert rykagn....sem var reyndar MIKIÐ af Blush var skoðað vel undir vökulu augnarráði frúarinnar og ekki var prinsinn síður duglegur að hjálpa til en ekkert sem líktist músarskít fannst. (Reyndar voru nokkur grunnsamleg korn þarna!). Þær aðgerðir sem settar voru í gang voru að allir settu buxurnar ofaní sokkana sína, því ekki vildum við lenda í því sama og bóndinn í Lækjarbrekki þegar músin leitaði skjóls upp undir skálminni hjá honum. Eins var hringt í liltu sys AFTUR til að fá nákvæmari útlistanir á því hve ein lítil mús borðaði mikið - Jú, hún taldi að það væri nú ekki meira en c.a. hálf kleina á viku. Aðeins minnkuðu áhyggjurnar við það - en samt var í allan dag bankað vel í þá skápa sem opnaðir voru og sængurnar hristar vel í kvöld til að leita af sér allan grun. Eins var talað um að fá sér hátíðni músargildru þó svo að ömmu Klifurmús þætti það óþarfi þar sem hún heyrir oft prinsinn sinn syngja "hátt við raust"  Jæja, eitthvað minnkuðu áhyggjurnar við nánari skoðun á kleinupokanum og með allar upplýsingarnar um stærð músarskíts og það magn matar sem þær innbyrgða á viku. EN, þá datt okkur í hug að köttur hefði rekið inn nefið og næsta mál á dagskrá var að bjóða ektamanni litlu sys í heimsókn því ofnæmið hans gerir vart við sig í hvert sinn sem köttur gengur götuna þeirra - ofnæmið átti semsagt að koma um leið og hann gengi inn um dyrnar ef köttur hefði verið hér. Prinsinun fannst það léleg tilgáta því að allir gullfiskarnir voru heilir heilsu, það var gerð talning. En svo ég drul... mér að efninu - ég var nefnilega rétt í þessu að mæta ketti hér fram á gangi Grin ég var nærri búin að knúsa hann ....en ákvað svo að reka helv.... köttinn út. Karlkvölin heyrði lætin í mér og fór á stjá - og þar sem hann er alkunnur af sinni miklu góðmennsku var það fyrsta sem hann sagði "rakstu hann út, honum hefur kanski verið hent að heiman!" og svo.....fór hann á eftir greyinu!  Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti köttum, en ég vil helst ekki hafa ókunna ketti gangandi hér um húsið! Ég kannast reyndar við þennan kött hann hefur mikið setið hér á pallinum en alltaf farið þegar ég opna - svo það er kanski ekki skrítið að hann hafi ákveðið að kíkja í heimsókn! En mikið eigum við eftir að sofa rótt í nótt vitandi að það er ekki her af músum í okkar húsum!.........jæja.....nú fer ég að sofa - ALSÆL LoL


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband