12.1.2009 | 00:07
Hér ríkir BARA gleði :)
Ég verð nú bara að setja inn aðra færslu því að nú ríkir mikil gleði hjá okkur sem enn eru vakandi í húsinu. Það varð nefnilega uppi fótur og fit í morgun þegar frúin gekk inn í eldhús og sá að kleinupoki húsbóndans var með STÓRU gati og búið að éta stóran part af kleinunum! Einhver minni göt voru líka á pokanum og vaknaði strax sá grunur að um mús væri að ræða...reyndar kanski frekar mýs!! Því að ein lítil mús ætti ekki að geta innbyrgt svo mikið magn af kleinum. Frúin tók sig strax til, bankaði í alla skápa, kíkti undir innréttinguna og sópaði vel allt gólfið í leit að músarskít sem samkv. litlu sys átti að vera einsog langt kúmen en samkv. Klifurmúsinni átti skíturinn að vera einsog kúmen eða jafnvel kaffikorgur! Hvert rykagn....sem var reyndar MIKIÐ af var skoðað vel undir vökulu augnarráði frúarinnar og ekki var prinsinn síður duglegur að hjálpa til en ekkert sem líktist músarskít fannst. (Reyndar voru nokkur grunnsamleg korn þarna!). Þær aðgerðir sem settar voru í gang voru að allir settu buxurnar ofaní sokkana sína, því ekki vildum við lenda í því sama og bóndinn í Lækjarbrekki þegar músin leitaði skjóls upp undir skálminni hjá honum. Eins var hringt í liltu sys AFTUR til að fá nákvæmari útlistanir á því hve ein lítil mús borðaði mikið - Jú, hún taldi að það væri nú ekki meira en c.a. hálf kleina á viku. Aðeins minnkuðu áhyggjurnar við það - en samt var í allan dag bankað vel í þá skápa sem opnaðir voru og sængurnar hristar vel í kvöld til að leita af sér allan grun. Eins var talað um að fá sér hátíðni músargildru þó svo að ömmu Klifurmús þætti það óþarfi þar sem hún heyrir oft prinsinn sinn syngja "hátt við raust" Jæja, eitthvað minnkuðu áhyggjurnar við nánari skoðun á kleinupokanum og með allar upplýsingarnar um stærð músarskíts og það magn matar sem þær innbyrgða á viku. EN, þá datt okkur í hug að köttur hefði rekið inn nefið og næsta mál á dagskrá var að bjóða ektamanni litlu sys í heimsókn því ofnæmið hans gerir vart við sig í hvert sinn sem köttur gengur götuna þeirra - ofnæmið átti semsagt að koma um leið og hann gengi inn um dyrnar ef köttur hefði verið hér. Prinsinun fannst það léleg tilgáta því að allir gullfiskarnir voru heilir heilsu, það var gerð talning. En svo ég drul... mér að efninu - ég var nefnilega rétt í þessu að mæta ketti hér fram á gangi ég var nærri búin að knúsa hann ....en ákvað svo að reka helv.... köttinn út. Karlkvölin heyrði lætin í mér og fór á stjá - og þar sem hann er alkunnur af sinni miklu góðmennsku var það fyrsta sem hann sagði "rakstu hann út, honum hefur kanski verið hent að heiman!" og svo.....fór hann á eftir greyinu! Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti köttum, en ég vil helst ekki hafa ókunna ketti gangandi hér um húsið! Ég kannast reyndar við þennan kött hann hefur mikið setið hér á pallinum en alltaf farið þegar ég opna - svo það er kanski ekki skrítið að hann hafi ákveðið að kíkja í heimsókn! En mikið eigum við eftir að sofa rótt í nótt vitandi að það er ekki her af músum í okkar húsum!.........jæja.....nú fer ég að sofa - ALSÆL
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Kæra dóttir,ég nefndi ekki að músaskítur væri einsog kaffikorgur, bara einsog kúmen. En ég stakk uppá að rotta hefði verið á ferðinni, bara til að "hressa" þig aðeins, enda tókst það bærilega.
En af því að þetta var nú köttur, af hverju ættleidduð þið ekki kattarskrattann, þið sem eruð svo miklir kattarvinir? Er það kannske af því kattarbúskapurinn endar yfirleitt illa hjá ykkur?
kveðja klifurmúsin.
klifurmúsin (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 19:49
Já, þér tókst að hressa mig VERULEGA við með því að nefna ROTTU!!
En það er alveg rétt hjá þér að kattarbúskapur okkar hefur hingað til endað afar illa -allir orðið undir bílum! Þess vegna get ég ekki hugsað mér að taka enn einn köttinn að mér!
Gíslabala fjölskyldan, 12.1.2009 kl. 21:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.