Fjallganga í dag!

Já, nýja árið er tekið með trompi á þessu heimili, við lögðumst í fjallgöngu í dag...eða kanski svona frekar "fell" göngu því Reykjafell varð fyrir valinu. Prinsinn var duglegur að ganga upp og blés ekki úr nös, þóttist reyndar þreyttur - þegar nestið hans kláraðis - og sveittur faðirinn og andstutt móðir ákváðu á stundinni að samþykkja óskina um að snúið yrði við rétt neðan við efstu brún ;) Það var því ákaflega glaður og léttur á fæti ungur prins sem hljóp niður á undan foreldrum sínum!!  Ætlunin er að taka mun meira nesti með í næstu ferð, það verður að endast upp á topp.  Annars eru það náttúrulega við foreldrar hans sem þurfum aðallega að æfa okkur - ekki hann því það er stefnan hjá okkur að ganga á Hvannadalshnjúk í vor með vinnufélögum mínum og bíðum við spennt eftir fyrstu sameiginlegu gönguferðinni. Frúin hefur verið dugleg að ganga nýju skóna sína til en betur má ef duga skal alla leið upp á hnjúkinn!

Sólarhringurinn á þessum bæ er aðeins að mjakast í rétta rás þ.e. við erum farin að sofna á skikkanlegri tíma og aðeins léttara að vakna, en enn má bæta sig og stefnan er að um næstu helgi verði allir búnir að jafna sig á jólafríinu og þeim "ósiðum" sem þá voru teknir upp = vaka leengi og sofa enn leeegur!

Nú þegar flestir eru að minnka bloggið þá er stóri bróðir húsbóndans farinn að blogga, sá er nokkuð skemmtilegur enda er meira pláss á blogginu þegar allir eru komnir á facebook Wink Endilega kíkið á karlinn en slóðin er: http://urgur.blog.is/blog/urgur/  Ég hef verið að hvetja litla bróður hans til að fara að blogga og veit að nafnið surgur er laust á blogginu - þeir yrðu flottir "urgur og surgur"! En miðað við hve "duglegur" hann hefur verið á þessari síðu ...er ég ekki alveg viss hvernig gengi með surgið! Hann hefur allavega nægar skoðanir og því ekki að fá smá farveg til tjáningar á blogginu...eldhúsborðið er ekki alltaf besti staðurinn Whistling ......þetta var illa sagt! 

Stóri strákurinn og félagi hans eru nú mikið að æfa sig í að spila á gítar - til skiptis "luftgítar" og minn gamla kassagítar. En við það hefur áhug prinsins vaknað á að stofna hljómsveit með vini sínum og meðan tveir tvítugir spila á "luftgítarinn" (tengdan sjónvarpinu) spila tveir sex ára pjakkar mikið á hljómborðið í stofunni og afrískar trommur - það er eiginlega ekki líft hér í húsinu þegar allir spila í einu. Sem betur fer hættir spileríið venjulega rétt fyrir kvöldmat sem hefur gert það að verkum að enn erum við "gömlu" enn ekki alveg búin að tapa okkur. Við spyrjum okkur annað slagið hvort við ættum að stoppa þetta af...eða leyfa þessu spileríi að þróast og ....þá ....vonandi batna....eða?

Sæl að sinni


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband