Helgin var bara þokkaleg

Við getum nú ekki annað en verið þokkalega ánægð með helgina og Göngum til góðs, held að flestir hafi nú gert sitt besta, við fengum alla vega næstum því alveg nógu marga sjálfboðaliða til að "taka bæjarfélagið" En auðvitað fundum við fyrir því að fólk var að gefa minna og við fengum mikið "klink". Enda er það svo vel skiljanlegt vegna þess að fréttirnar um komandi helgi með Göngum til góðs féllu í skuggann af öðrum og stærri fréttum. Auðvitað voru stjórnarmenn á fullu að ganga í hús og flestir tóku göngumönnum vel. Söfnunarstjórinn sjálfur -ÉG ;) - fór að ganga og lét ólétta systur mína standa vaktina fyrir mig á meðan, þegar ég og gömul vinkona sem var með mér í stjórn vorum hálfnaðar að ganga eina stóra götu snérum við okkur að verslunarkjarna til að sjá hvort ekki væri meira að hafa þar með minni fyrihöfn - og mikið rétt, þarna fóru hlutirnir að gerast. Miðað við allt erum við bara þokkalega ánægð með GTG. Prinsinn gekk með pabba sínum og gekk bara þokkalega vel hjá þeim þar til þeir komu heim til eins vinar hans, þá ákvað sá litli að verða eftir og láta karlinn klára göturnar sem eftir voru. Stóri strákurinn gekk líka nokkrar götur og var bara þokkalega ánægður með það .........sérstaklega þegar söfnunarstjórinn kom færandi hendi með nýjar kleinur handa honum Wink 

Þannig að gangan sem átti að sameina íslenskar fjölskyldur í göngu til að sameina fjölskyldur í Kongó varð þannig hjá Gíslabalafjölskyldunni að pabbinn gekk, sá eldri gekk aðrar götur, prinsinn var heima hjá vini sínum og frúin var í söfnunarstöðinni og gekk svo götur (og verslunarkjarna) í hinum enda bæjarins!!.......við sameinuðumst þó liggjandi fyrir framann imbann um kvöldið - uppgefin á sál og líkama Tounge..........en jafnframt glöð eftir góðan dag.

Enn er ekki planaður fundur þessa vikuna....nema smá stefnumót í dag sem gekk vel og stóð stutt yfir. Ákvað eftir stefnumótið að doka við eftir karlkvölinni svo hann þyrfti ekki að fara í strætó heim. Eyddi góðum tíma í Góða hirðinum við að skoða bækurnar þar - fór svo að sækja karlinn. En NEI, NEI hann var þá ekkert á leiðinni heim, var að fara á fund og búin að redda sér kvenmanni til að skutla sér heim!! Þannig að við mæðginin brunuðum til litlu sys og co. og svo til tengdó. Þau gömlu voru að gera að kjöti útí skúr og prinsinn var ekki lengi að segja við afa sinn "Afi, hvaða dýr varstu að skjóta?"  Jú, afi svaraði með semingi að þetta væri nú lamb, "Vá, afi, hvað skaustu mörg lömb"? Þegar inn úr skúrnum kom sá hann svo þessi dýrindis svið á eldhúsbekknum sem voru tilbúin til matar. Ekki leyst prinsinum vel á það (enda af pizzu kynslóðinni) og vildi ekki einu sinni smakka. Hann var heldur ekki lengi að tilkynna pabba sínum þegar hann kom  heim að :"afi og amma eru að borða þrjá hálfa hausa af litla lambinu í kvöldmat"!  Þið hefðuð átt að sjá svipinn á prinsinum þegar pabbi hans sleikti út um og sagði að tungan væri nú best!

Hurðu, ég kem víst til með að útskrifast nú í haust frá HÍ. Þannig að ég þarf ekki að kenna neinum um ritgerðarklúðrið. Frekar flott að útskrifast aftur með sömu fagmenntun og ég gerði fyrir c.a. 15 árum en öðrum skóla og hækka ekki um krónu í laun! Mikið á sig lagt.....eða bara svona gaman í vinnunni og skólanum!

Litli bróðir minn fékk þá flugu í höfuðið að við tvö ættum nú bara að taka slátur í haust, hann hefur trölla trú á systur sinni. Ég hef ekki eins mikla trú á honum því að hann er þekktur "skreppari", alltaf er hans þörf annars staðar en hann þarf að vera á. Ég sé mig alveg í anda sitja hér í blóð og lifrarpolli grenjandi í símann til að fá hjálp frá mömmu minni vegna þess að hann þurfti "aðeins" að skreppa einn túr!! En það er að mótast hjá okkur ný hugmynd með sláturgerðina - erum að melta hana aðeins betur......læt vita þegar planið er komið lengra á veg..... Wink

Grunnskólaganga prinsins gengur þokkalega en auðsjáanlegt að hann er alinn upp með mikilli þjónustu því hann er ansi gleyminn á skóladótið sitt. Í dag gleymdi hann íþróttafötunum sínum, gammosínunum sínum, flíspeysunni, regnjakkanum og regnbuxunum sínum í skólanum. En hann mundi eftir að skila vini sínum nestisboxinu sem var í tösku prinsins! Til að líta á björtu hliðarnar þá verð ég að segja að ég er ákaflega glöð að sjá hann í lok dags því þá fyrst veit ég hvort hann hafi munað eftir að setjast uppí skólabílinn, fara úr honum, fara inn í stofuna sína og svo í selið eftir skóla.  Það merkilega er að ég var viss um að skólataskan týndist á fyrsta degi - en nei, alltaf hefur hún komið heim. þó hún sé stundum tóm!!

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvernig gengur með skriftirnar? Er engin hugmynd komin?

ein forvitin (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 20:25

2 identicon

Hvað er að því að vera dálítið utan við sig ..??? prófessoranir eru það nú yfirleitt

kv Nabba

Arna (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 21:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband