24.8.2008 | 13:20
Gullhringurinn minn!
Um daginn þegar ég var að baka hjónabandssælu þá lagði ég fína gullhringinn minn frá mér á bekkinn meðan ég hnoðaði deigið. Ég hef haft hann á mér síðan ég var tvítug þannig að þegar hann er ekki á fingrinum í smá stund tek ég strax eftir því - þetta er svona "fikt" hringurinn minn.
Eftir baksturinn lagðist ég uppí sófa en fann um leið að hringinn vantaði. Gekk þá fram í eldhús til að ná í hann - en hann var HORFINN! Þá hófst mikil leit á bekknum, gólfinu, í skápunum fyrir neðan bekkinn, í hveitipokanum, um allt hús að ógleymdu því að ég lagði það á mig að leita í ruslafötunni! Skoðaði sem sé hvert það snitti sem þar fannst - velti því milli fingra mér áður en það var sett í nýjan poka. Allt kom fyrir ekki - ég fann ekki hringinn. Þegar ég var farin að verða frekar stressuð yfir þessu gekk ég fram hjá mynd af afa í sveitinni og sagði stundarhátt "Jæja afi, nú verður þú að hjálpa mér að finna hringinn, þið amma gáfuð mér hann" Hélt svo leið minni áfram inní stofu til að virkja prinsinn í endurtekna leit með mér. Þegar við prinsinn komum fram í eldhús byrjaði hann á að líta undir skápana, ég lagði hendurnar á bekkinn meðan ég hugsaði hvar ég ætti eftir að leita - AFTUR. Þá varð mér litið á höndina og ÞAR VAR HRINGURINN KOMINN Á FINGURINN!?!?! Þegar ég stamaði uppúr mér að ég væri búin að finna hringinn þannig að leitin hjá prinsinum mætti alveg hætta þá spurði hann "Hvar fannstu hringinn" ég gat tautað .......á fingrinum, finnst þér það ekki skrítið? Var hann fljótur til og svaraði að bragði "Nei, ég fann hann og notaði MÁTTINN minn!
Nú er spurningin:
Var ég með hringinn allan tímann en SÁ hann ekki?
Hjálpaði afi mér að finna hringinn?
Eða......
....er prinsinn virkilega með mátt?
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.