12.7.2008 | 21:44
Fiskar í söltum sjó!
Loksins erum við farin að setja inn myndir hér á síðuna. Það er ekki hægt annað en að nýta þann möguleika. Vonum bara að við endumst í þessum myndum, þurfum líklega að æfa okkur aðeins því þetta er ekki alveg að ganga einsog í sögu hjá okkur.
Það er búið að finna lausn á vandamálinu með marenstertuna í frystinum - það verður semsagt Tupperwarekynning hjá okkur á morgun. Karlkvölin lagðist nú samt eiginlega í rúmið þegar hann frétti það! Það var merkilegt nokk hægt að ná í fólk á kynninguna, á reyndar eftir að sjá hvernig mætingin verður, einhverjir voru með lélegar afsakanir einsog t.d. ég er í Kanada, ég er í Pittsburg, ég er í Svíþjóð og ein sagði ég er í Vestmannaeyjum! Merkilegt hvað fólki dettur í hug að segja til að sleppa að mæta á kynninguna.
Fiskarnir sem Prinsinn á fengu að synda í söltum sjó í kvöld. Við söltuðum þá sem sagt vel í kvöld, það ku gera þá ónæmari fyrir hvítblettaveiki sem er víst algeng. Við vigtuðum samviskusamlega 2 gr. af grófu Krónusalti á hvern líter og Prinsinn skellti öllu útí í einu.........þeir eru ENN lifandi! Það stendur til að fjölga aðeins hjá þeim og svo heyrðu hann af fiskamat sem STÆKKAR fiskana og það er náttúrulega á dagskrá hjá honum að verða sér úti um þannig fóður. Ég gleymdi alveg að segja að þeir eru reyndar bara fjórir núna - sá hvíti og rauði drapst í fyrradag, hann hefur líklega ekki verið svona rólegur og gáfulegur heldur var greyið veikur. Við vitum ekki hvað var að honum, fengum þær upplýsingar í fiskabúð að það væri nú frekra algengt að þeir dræpust greyin án þess að vitað væri af hverju. Prinsinn tók þessu bara vel - enda var okkur farið að gruna að fiskurinn væri ekki svona rólegur að ástæðulausu!
Fengum loksins tækifæri á að "tala" við Nöbbu og Co. í Ameríku í kvöld, við náðum þeim á msn-inu og allt gott var að frétta frá þeim. Við heyrðum einnig í stóra stráknum okkar í kvöld frá NY og allt gengur vel hjá þeim. Hann hefur ekki undan að taka við pökkum fyrir pabba sinn sem taka á með heim. Þetta fer að verða einsog þegar ég skrapp til NY og fékk einn pakka á dag - allt varahlutir í mótorhjól! Strákurinn er búinn að vera í þrjár vikur úti þannig að hann kemur líklega heim með hálft hjól í töskunni! Nabba og strákarnir hennar sáu víst forsetann í Washington í gær og drógu upp myndavélarnar einsog sannir túristar, það verður spennandi að sjá myndirnar sem settar verða inn á 2erni í kvöld.
Í heila viku höfum við mæðginin notið þess að sitja úti á palli og gera ekki neitt. En á óskalista Prinsins hefur verið bíóferð - Kung Fu panda - við höfum í hvert sinn þegar hann hefur beðið sagt við hann "þegar fer að rigna förum við í bíó" Í morgun vorum við vakin með miklum látum þegar hann kallaði "Mamma, pabbi, það er rignin úti, við förum þá í bíó" og var mikil gleði í rödd hans. Auðvitað gátum við ekki annað en drifið okkur. Ekki amalegt að vera vakin með svona miklum fögnuði yfir rigningunni! .......við samglöddumst honum eiginlega líka.
kveð að sinni
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.