Gleðilegt nýtt ár!

Við familían erum búin að eiga yndisleg jól og sumarfríinu var vel varið með því að taka það á milli jóla og nýjárs. Ég er reyndar á því núna eftir gott frí að best væri að taka alveg frí á milli jóla! EN þar sem það gengur víst ekki þá er ég glöð með þetta frí mitt núna. Prinsinn er búinn að vera í fríi líka þannig að við tvö höfum haft það glimrandi gott. Ég verð að vinna tvo daga þessa vikuna - en er allt í einu að muna eftir því að prinsinn verður í fríi alla vikuna! ÚPPS -hvað gera bændur nú? .....það hlýtur að reddast.

Fyrsti dagurinn á nýju ár var okkur góður - systir pappa kom í heimsókn með manni og dóttur - þau hafa eytt nokkrum dögum hér fyrir sunnan en eru á leið austur á land - það var óvænt ánægja að fá þau í heimsókn í dag. Litla sys kom svo eftir brennuna með alla strákana sína í hátíðarkjúlla sem bráðnaði í munni - á borðum var einnig hreindýrakjöt beint frá Sömum í Svíþjóð og svínakjöt. Í eftirrétt var heimalagaður "mömmuís" með suðusúkkulaði og ekki sveik hann frekar en fyrri daginn. Má ekki gleyma rauðkálinu úr Magranum sem frændi á Resinu gerði handa mér - mágur minn hafði á orði að þessi uppskrift yrði að fara í matreiðslubók Magranna sem er í vinnslu.

Um áramótin eyddum við góðu kvöldi með vinum okkar uppí Hvalfirði en þar sem eldri sonurinn var orðinn virkilega æstur í að koma sér heim þá létum við undan og laumuðum okkur heim eftir skaupið. Fjölskyldan sat í bíl rétt að koma í bæinn þegar nýja árið gekk í garð. Það var alls ekki slæmt þar sem við vorum þó öll saman. Prinsinn vildi endilega skjóta upp því rokið í Hvalfirði gerði það að verkum að ekki þótti ráðlegt að skjóta neinu upp þar - flugeldarnir hefði líklega alls ekki tekið stefnuna upp - heldur á haf út. Við tókum því á það ráð að skella okkur til litlu sys og co. og var sem betur fer tekið fagnandi þar -einsog alltaf. Heim komum við ekki fyrr en um þrjúleytið - en þá sátu þar að "sumbli" eldri sonurinn og vinur hans. Dáist að ungu mönnunum þar sem þeir voru nú ekki lengi að bjarga sér þegar svengdin kallaði - fengu sér AB-mjólk og graflaxinn sem átti að vera forréttur á nýjársdag!! Ungu mennirnir ákváðu eftir að við komum heim að skella sér í smá gönguferð - rétt áður en karlinn gekk til náða var hringt í hann og hann beðinn um að koma ungu göngugörpunum til bjargar þar sem þeir stóðu undir húsvegg utar í hverfinu - blautari að utan en innan!! Hann skellti sér drengjunum til bjargar, með rokinu og rigningunna hvarf víst partýfílingurinn út í veður og vind þannig að allir fóru heim að sofa -sem var bara gott og vel.

Prófin gengu víst ekki alveg eins illa og ég taldi -á reyndar eftir að fá út úr því prófi sem ég kvíði mest fyrir - vona að ég fái einhverja punkta fyrir viðleitni! Fá svo ekki allir 1 fyrir að mæta? Fjölskyldan hefur verið ákaflega varkár og vinsamleg = ekki spurt mikið hvernig mér hafi gengið - ég tek því alla vega þannig -frekar en að áhugaleysi á námi mínu liggi á bakvið það!!

Bless í bili

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband