Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
28.9.2008 | 22:19
Brennivínsglösin!
Í kvöld grilluðum við yndislegt lambakjöt sem bráðnaði í munni. Í tilefni dagsins(sunnudags) settumst við inn í borðstofu og nutum matarins við kertaljós og með nýja borðbúnaðinum okkar. Um að gera að nota hann við hátíðleg tækifæri. Það er eitthvað betra við að nota diskana sem keyptir voru á lagersölunni í sumar heldur en gömlu góðu IKEA diskana sem eru orðnir ansi rispaðir og jafnvel eitthvað skörðóttir. Alltaf þegar við borðum í borðstofunni hleypur prinsinn að glasaskápnum til að ná í "brennivínsglösin" handa foreldrum sínum. Það er mikið atriði að þau drekki úr brennivínsglösunum með háa fætinum (rauðvínsglös).....eiginlega er honum alveg sama hvað fer í glösin rauðvín, kók, vatn, safi, mjólk.....o.þv.l. Við erum stundum að velta því fyrir okkur hvernig það hljómar á mánudagsmorgni í skólanum "mamma og pabbi voru að drekka úr brennivínsglösunum sínum í gær" .....við höfum alla vega ekki heyrt neitt frekar um það en þegar að því kemur þá getum við bent á að við séum í góðum höndum með "uppgjafa" áfengisráðgjafa í fjölskyldunni. Vona bara að hún hafi tíma til að sinna okkur!
Skál!
kv.Frúin
25.9.2008 | 22:23
Góða veðrið í skólanum!
Hef kanski skrifað það áður - en prinsinn er ansi oft á stuttermabol í selinu, reyndar man hann einstaka sinnum eftir að taka peysuna sína með sér þangað en það er nær aldrei sem hann tekur jakkann sinn með! Ég verð ekkert upphrifin þegar ég sé hann á bolnum úti í rigningunni að leika sér - en maðurinn er náttúrulega með annað hitastig í kroppnum en móðir hans (kuldaskræfan!). Nú undanfarið hefur hann verið að prófa að fara á handboltaæfingar - einsog svo margir í dag, vinsælasta sportið. Þegar ég sótti hann á æfingu í fyrradag var minn sko kominn hálfa leiðina út á STUTTBUXUNUM! Ég er eiginlega rosalega glöð að hann var ekki á sundskýlunni því að hann var í sundi í þriðja tíma! Verður ekki alltaf að líta á björtu hliðarnar?
Nú eru feðgarnir búnir að vera sérstaklega duglegir að fara í sund í vikunni, fara á hverju kvöldi, þannig að prinsinn fer tvisvar á dag, þessa vikuna. Hann fer líklega að breytast í marglittu, einsog klifurmúsin hræddi móður hans svo oft á þegar ég hékk í lauginni langt fram eftir degi og svo aftur langt fram eftir kvöldi! Eftir allar sundferðirnar er drengurinn allavega hreinn og alveg tilbúinn að drífa sig í háttinn sem er gott fyrir okkur foreldrana. Við eigum nefnilega í miklum erfiðleikum að vera ákveðin við hann, við erum alltof eftirlát og hlaupum fram eftir kvöldi eftir öllum hans óskum - hann þarf mjólkurglasið sitt, hann þarf ávaxtabita, hann þarf að bursta tennurnar aftur, hann þarf að pissa o.fl............reyndar kom það okkur á óvart eitt kvöldið þegar hann var á leið í háttinn að við létum hann drekkka mjólk, borða smá banana, bursta tennurnar og pissa ÁÐUR en hann fór í rúmið og vitið þið hvað gerðist? ? ? HANN LAGÐIST Í RÚMIÐ, LESIÐ VAR FYRIR HANN OG HANN SOFNAÐI!!...........Þetta er nú kanski eitthvað sem við komum til með að endurtaka, hver veit!
Ég skellti mér í klippingu og strípur í dag, er búin að vera á leiðinni síðan í júlí! Klipparinn fékk sjokk þegar hún sá úrsérvaxið hárið og strípurnar sem voru komnar ansi langt frá rótinni. Enda stakk hún uppá að ég pantaði mér bara tíma áður en ég færi heim og hún "lét" mig gera það -sagði svo reyndar að ég gæti auðvitað breytt honum seinna, en ef ég kæmi eftir c.a. sex vikur og svo aftur fyrir jól þá myndi ég nú líta þokkalega út í vetur Svei mér þá ef ég ætla ekki bara að taka hana á orðinu. Ég sé nefnileg að samstarfskonur mínar sem fara reglulega í klippingu og lit, líta svo miklu betur út en við sem erum ekki alveg að standa okkur í þessum málum. Mikið hlakka ég til að heyra úti í bæ ......."já, kerlingi, hún er nú alltaf svo smart um hárið" Gott að ég fattaði þetta núna, svona rétt áður en ég "hoppa yfir á næsta tuginn!!".
Jæja, nú er ég farin að horfa á CSI með karlkvölinni, hann er að verða búinn með poppið þannig að það er ekki seinna vænna að ræna hann restinni og láta hann segja mér hvað sé búið að gerast í þættinum..........honum finnst það nú líka svo skemmtilegt
19.9.2008 | 21:26
Týndi sonurinn!!
Þegar ég fór að sækja prinsinn í skólavistunina í gær sá ég hann ekki við fyrstu leit, þegar ég sá svo hvorki jakkann hans né skóna og við frekari leit sá ég ekki töskuna hans þá fór mitt litla hjarta að slá aðeins örar. Hvar var drengurinn? Ég reyndi að tala við tvo starfsmenn þarna - annar talaði ekki íslensku og hinn sagði nú bara " Heldurðu að ég þekki öll börnin hér með nafni?" Loksins sá ég KONUNA sem best er að tala við og snéri mér að henni til að spyrja um prinsinn. "Yes, Yes, I know him, I think he was telling me that he was going home with some friend, I think so, I did not understand him" ARGGGG!!!!! Þegar ég var búin að leita um allt þá datt mér í hug að hringja grátklökk í litlu sys og spyrja hvar ég ætti helst að leita, jú hún hélt að best væri að byrja í sófanum hjá henni!!!!!! Þá hafði þessi elska sent prinsinn til að segja að hann færi heim með frænku og svo sendi hún mér sms - sem ég fékk aldrei! Og auðvitað skildi enginn hvað hann sagði í vistuninni. Gott er allt sem endar vel - hann fannst heill á húfi og c.a. klukkutíma síðar var ég búin að jafna mig. Það er kanski óþarfi að segja það en ég treysti mér ekki til að senda hann í dag í vistunina. Vona að ég jafni mig yfir helgina - annars eru s.s. önnur plön komin á fullt skrið.
Mágur minn -elskulegur - stakk uppá að hann myndi sækja prinsinn í dag, senda hann inn með þau skilaboð að hann færi heim með manninum sem væri með nammi í poka!! "candyman" ......ja....þetta er eiginlega bara alls ekki fyndin tilhugsun!!!!
Annað mál - kósýkvöldið og kynningin fyrir foreldra fyrsta bekkjar var bara virkilega fín í gær. Við fengum kartöflugratín, kjöt og salat. Reyndar komst ég að því að kartöflurnar sem koma átti með í skólann voru vegna þemaverkefnis barnanna en ekki í gratínið. Kósýhornið var tómlegt en foreldrar fengu að vita að allir mættu koma með púða í hornið þannig að mig er strax farið að hlakka til næsta fundar
kveð að sinni
16.9.2008 | 21:39
"Kósýhornið og kartaflan í bæjarsjóð!!"
Litli prinsinn kom alveg uppgefinn heim á föstudaginn eftir vikuna í skólanum. Hann kom með fyrstu heimavinnuna og kláraði hana á "fjórum sléttum" ......líklega þurfum við aðeins að æfa okkur meira í að vera vandvirk! En hann skrifaði 4 línur af tölustafnum 1 -og ......hann hallaði nú stundum aðeins of mikið............eða ekki neitt! En þetta kemur nú ábyggilega. Hann er alveg hættur að tala um að fá fartölvu lánaða heima til að taka með í skólann - því auðvitað hélt hann að allir væru með fartölvur einsog í skólanum hennar mömmu og stórabróður, Nabban hans og "ástin mín" eru líka með tölvur í sínum skólum.
Kvöldið varð hálf dapurlegt í fiskabúrinu sem prinsinn fékk í afmælisgjöf. Litli hvíti og rauði fiskurinn hans "dó AFTUR". Þetta er nefnilega í annað sinn sem fiskur drepst og sá fyrri var alveg einsog sá seinni. Við erum búin að ákveða að vera ekkert að fá þann þriðja því prinsinum finnst sannað að þessir fiskar deyji alltaf! Enda er svo sem alveg nóg af fiskum eftir í búrinu og þetta litla grey var lang minnst og mikið verið að hnýta í hann af stærri fiskunum.
Í dag fór prinsinn í heimsókn til Nöbbu (öðru nafni í pössun) og fékk hann að fara með á karate æfingu sem var víst ekki leiðinlegt - til að taka af allan misskilning var Nafna ekki á æfingu heldur stóri strákurinn hennar sem er víst afar efnilegur :)
í dag þegar prinsinn kom heim tilkynnti hann að á morgun ætti hann að taka með sér í skólann: "Eina kartöflu og einn kodda"! Það væri nefnilega bráðum partý fyrir mömmur og pabba í skólanum og hann ætti að koma með kartöfluna til að borða og koddann í kósýhornið! Við vissum að foreldrar 1.bekkjarbarna ættu að hittast eitt kvöld í skólanum í vikunni og fá mat í boði bæjarstjórnar - en við vissum ekki að sjóðir bæjarfélagsins væru svo daprir að fyrstu bekkingar ættu að koma með kartöflurnar! !
Nú erum við foreldrarnir orðin virkilega spennt að fara og fá okkur s.s. eina kartöflu og liggja í kósýhorninu með öllum hinum foreldrunum - þetta verður virkilega áhugavert kvöld
kveð að sinni
13.9.2008 | 00:30
Ritgerðin komin í prent :)
Jæja, þá er ég loksins búin að klára ritgerðina mína(og JSH) sem við byrjuðum á í janúar, við ætluðum að klára hana í maí en vegna "skemmtiferðar" til NY höfðum við engan tíma til þess. Þannig að við ákváðum að redda þessu í sumar.....og höfum því setið sveittar síðustu daga við að klára - fresturinn er til 15.09. kl:15:00 og ENGINN FRESTUR GEFINN. Þannig að nú er bara að vona að ekki verði rafmagnslaust né við bensínlausar svo við getum ekki skilað prentaða eintakinu inn. Það er fleira merkilegt við þessa ritgerð (annað en að við erum búnar að "ganga með hana" í 9 mánuði). JSH útskrifaðist sem fóstra sjötíu og eitthvað, ég útskrifaðist sem fóstra níutíu og eitthvað -úr öðrum skóla en hún (FÍ). Við ákváðum að skella okkur í KHÍ til að ná okkur í B.Ed.-gráðu (útskrifast AFTUR) EN við náðum því ekki og munum því útskrifast (ef vel gengur) úr HÍ !!!.......með sömu réttindi og JSH fékk sjötíu og eitthvað! ................þetta er nú svo flókið að ég skil þetta varla sjálf.
Ég læt vita þegar niðurstöður eru komnar um hvernig gekk - EF vel gengur
kveð að sinni
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.9.2008 | 23:50
Dvergapassið!
Síðan á laugardag hafa strákarnir hennar litlu sys verið hjá mér, er líklega búin að skrifa aðeins um þá hér. Hér koma nokkrar játningar um passið:
Laugardagskvöld: sá yngri datt úr rúminu, svaf svo á dýnu en vaknaði hjá hjónaleysunum.
Sunnudagskvöld: sá eldri grét af söknuði - saknaði mömmu sinnar svo mikið. Sá yngri datt úr rúminu -aftur! kom aftur uppí til hjónaleysanna. Pylsur í matinn!
Mánudagur: sá eldri kom heim um kl:22:00 eftir sundferð með húsbóndanum og prinsinum. Hann fór svo berfættur í skólann! Hvorugur vildu lasagne-ið mitt ....fengu afganginn af pylsunum í matinn. Sá eldri sofnaði hjá prinsinum, sá litli á dýnunni, en vöknuðu báðir í frænku rúmi, búnir að hrekja húsbóndann fram í stofu!
Þriðjudagur: sá yngri var sendur heim úr leikskólanum með hlaupabóluna. Sá eldri fékk ekkert með sér að drekka í skólann. Pizza í matinn f. þann eldri, sá yngri vildi bara engjaþykkni!
Ég er einhvernveginn farin að trúa því að "Ástin mín" og systir mín munu ekki fara til útlanda á næstunni - eða kanski fara en ég er ekki viss um að ég fái að passa!! EN - mér til málsbótar er nú ýmislegt sem hefur gengið þokkalega vel, þeir eru t.d. alsælir að vera hjá mér, sá yngri með ástarjátningar (sem gleðja mitt litla hjarta) og sá eldri hefur kennt prinsinum ýmsa góða siði. Enda er hann árinu eldri og lítur á sig og kemur fram einsog sönn fyrirmynd. Vona bara að það haldist þegar þeir fara heim á morgun í okursúkkulaðið! En mér skildist á litlu sys að ALLT væri svo dýrt í Sviss að það eina sem þau hafa keypt eru einhver nokkur kíló af súkkulaði! Ég vona líka innilega að þeir fari ekki að halda því áfram að skríða uppí! !
En þó svo frænka sé nú aðeins þreyttari en venjulega eftir daginn mega greyin eiga það að þeir eru yndislegir og ákaflega góðir drengir. þreytan er nú samt ekki meira en það að í gærkveldi og í kvöld hef ég setið við og útbúið jólakort! Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Þeir sem þekkja mig (og minn mann) vita að við erum nú alltaf svo ægilega dugleg og miklar hamhleypur til verka - viljum helst gera allt strax - helst í gær!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.9.2008 | 21:48
Allt gengur einsog í sögu.
Núna um helgina fjölgaði all verulega í strákahópnum okkar - við fengum tvo frændur lánaða meðan foreldrarnir skruppu sem fararstjórar til Genfar með fullt af sjálfboðaliðum!! Já, það hefði nú ekki verið slæmt að vera sjálfboðaliði í þeirri ferð ......reyndar alveg jafn gaman að hafa frændurnar með sér - það var nú samt spaugilegt að sjá hve faðir þeirra var æstur í að losna við þá - bjöllunni var hringt, inn komu tveir ungir drengir, faðir þeirra henti svo töskunni inn og rétt gat sagt "gangi þér vel, við sjáumst" -eða það heyrðist mér rétt áður en hann skellti í lás. Hann reyndar sá að sér og rak nú aðeins inn nefið. Móðir þeirra blessunin henni fannst svo ægilegt að skilja þá eftir hjá okkur að hún grét alla leiðina heim til sín - eða kanski var óléttan eitthvað að spila þar inní !!
Við erum búin að finna ný nöfn á þessa þrjá prinsa en þeir eru nú kallaðir Lumpur (prinsinn minn), Klumpur (sá elsti) og Strumpur (sá minnsti) -reyndar er hann ekki alveg jafn sáttur við sitt nafn og þeir eldri því að hann segir hátt og snjallt þegar hann er kallaður Strumpur -"Nei, ekki Dumpu!"
Lumpur og Klumpur ætla að taka rútuna á morgun í skólann en ég tek þann litla með mér á JEPPANUM - en það er forláta jeppi sem fylgir þeim Klump og "Dump".´
Lumminn minn fór í berjamó um daginn með frúnni og þau týndu 40 lítra -og er því sultugerð þar á bæ daginn út og inn. Ég gat ekki neitað honum þegar hann leitaði til mín um að gefa sér krukkur. Þar sem ég er safnari í krossferð gat hann fengið allar 25 krukkurnar sem ég átti. Daginn eftir birtist hann svo með 4-5 lítra af berjum handa mér til að gera sultu úr. Sem hefði verið æðislegt ef ég hefði átt krukkur!! En þar sem Nesi bróðir minn stakk uppá að ég myndi nú bara fara að lifa heilbrigðari lífir og búa reglulega til smoothies þá var ég fljót að setja þau í poka og frysta. Nú getur flensan og kvefið komið -því ég á 4-5 lítra af c-vítamíni í frysti.
Klumpur og "Dumpur" komu með Aragon með sér og virðist honum líða ansi vel hjá okkur - hann er allavega farinn að borða vel. Klumpur hefur aldrei séð hann borða svona mikið einsog í dag. Það er gott að lystin er komin því að ég var farin að halda að hér yrði e.t.v. haldin gullfiskaútför með viðhöfn! Líklega hefur ferðalagið hingað í krukkunni gert honum gott eða þá að hann sé svona hress af því að horfa á fiskana okkar en hann hefur gott útsýni yfir þá. Vona bara að þessi mikla matarlyst haldist. Ég er reyndar farin að trúa því að hann sé svona rólegur af því að sandurinn í búrinu er bleikur!! Held að það sé ekki alveg það sem karlkyns bardagafiskur óskar sér.
Jæja, læt þetta duga í bili.
24.8.2008 | 13:33
Prinsinn byrjaður í 1.bekk
Á föstudaginn mættum við mæðginin á fyrstu skólasetninguna. Karlkvölin var löglega afsakaður þar sem hann eyddi sínum tíma með bróður sínum í fjallaferð (átti reyndar að vera veiðiferð.....æj....þettar er viðkvæmt mál) Ég verð að segja að prinsinn kom mér skemmtilega á óvart, hann var óaðfinnanlegur allan tímann sem ég fylgdist með honum. Spennan er líka mikil hjá honum. Reyndar er hann ekki alveg á því að hann þurfi að læra að lesa því hann er alveg læs, nema það að hann segist ekki geta lesið upphátt, bara í hljóði. Ætli heimalærdómurinn í vetur fari þá ekki frekar í það að hann læri að lesa upphátt, því það er ekki nægilegt að lesa bara í hljóði. Reyndar hugsa ég að það geti tekið á því einsog allir vita er mjög erfitt að lesa upphátt! !
Hann valdi sér fína Transformer skólatösku, við fjárfestum í betri þegar þyngist í töskunni, verður ekki að hugsa um bakið á honum. Það er ótækt að hann verði jafn slæmur og allir hinir sem hafa gegnið menntaveginn á undan honum og eru með hryggskekkju og kvalir vegna þess að töskurnar voru ekki með 15 þús. króna bakstuðningi. Reyndar voru einhverjir jafnvel með hliðartöskur!
Kvíðinn á þessu heimili vegna skólagöngunnar er aðallega hjá mér, prinsinn ætlar bara með frosið brauð í nesti (verð líklega að kaupa litla kælitösku) hann kann að lesa og þarf ekki að læra að lesa upphátt, sá sem hann hefur lent í mestu samstuði við í leikskóla -situr fyrir aftan hann, kennarinn er alveg nýr í kennslu (reyndar plús að hún er menntuð leikskólakennari), hann ætlar að ganga í skólann (aðrir í nágrenninu taka rútuna) að ógleymdu því að hann segist ekki þurfa að fara í frístund eftir skóla - hann gangi bara heim!
Er ég kanski bara móðursjúk?
Kveð að sinni
24.8.2008 | 13:20
Gullhringurinn minn!
Um daginn þegar ég var að baka hjónabandssælu þá lagði ég fína gullhringinn minn frá mér á bekkinn meðan ég hnoðaði deigið. Ég hef haft hann á mér síðan ég var tvítug þannig að þegar hann er ekki á fingrinum í smá stund tek ég strax eftir því - þetta er svona "fikt" hringurinn minn.
Eftir baksturinn lagðist ég uppí sófa en fann um leið að hringinn vantaði. Gekk þá fram í eldhús til að ná í hann - en hann var HORFINN! Þá hófst mikil leit á bekknum, gólfinu, í skápunum fyrir neðan bekkinn, í hveitipokanum, um allt hús að ógleymdu því að ég lagði það á mig að leita í ruslafötunni! Skoðaði sem sé hvert það snitti sem þar fannst - velti því milli fingra mér áður en það var sett í nýjan poka. Allt kom fyrir ekki - ég fann ekki hringinn. Þegar ég var farin að verða frekar stressuð yfir þessu gekk ég fram hjá mynd af afa í sveitinni og sagði stundarhátt "Jæja afi, nú verður þú að hjálpa mér að finna hringinn, þið amma gáfuð mér hann" Hélt svo leið minni áfram inní stofu til að virkja prinsinn í endurtekna leit með mér. Þegar við prinsinn komum fram í eldhús byrjaði hann á að líta undir skápana, ég lagði hendurnar á bekkinn meðan ég hugsaði hvar ég ætti eftir að leita - AFTUR. Þá varð mér litið á höndina og ÞAR VAR HRINGURINN KOMINN Á FINGURINN!?!?! Þegar ég stamaði uppúr mér að ég væri búin að finna hringinn þannig að leitin hjá prinsinum mætti alveg hætta þá spurði hann "Hvar fannstu hringinn" ég gat tautað .......á fingrinum, finnst þér það ekki skrítið? Var hann fljótur til og svaraði að bragði "Nei, ég fann hann og notaði MÁTTINN minn!
Nú er spurningin:
Var ég með hringinn allan tímann en SÁ hann ekki?
Hjálpaði afi mér að finna hringinn?
Eða......
....er prinsinn virkilega með mátt?
19.7.2008 | 01:04
Margt að gerast í þessari viku!
Karlkvölin er kominn í sumarfrí. Í kvöld kemur eldri sonurinn heim, sá yngri er búinn að vera á reiðnámskeiðinu sínu alla þessa viku. Frekar skrýtið að þurfa að vakna kl:8 í fríinu en einsog þeir sem til þekkja erum við í þessari fjölskyldu freeeekar morgunsvæf. Núna t.d. er prinsinn í baði, karlinn úti í bílskúr að laga til, ég á netinu og að glápa á imbann = enginn á leið í rúmið! Við erum nú líka að bíða eftir þeim eldri sem er rétt að leggja í hann heim frá Keflavík. Núna erum við spennt en á tímabili fannst okkur nú bara ágætt að vera laus við hann og allt hans hafurtask en við náttúrulega búumst við breyttum manni heim frá NY ........
Einn fiskurinn okkar - sá svarti - er búinn að vera eitthvað slappur. Okkur grunar að bardagafiskurinn sé að narta í hann en höfum ekki staðið hann að því. Við fengum eitthvað "meðal" í búrið sem gerði það gult! Það er nú eiginlega bara frekar töff svona. Við settum líka matarsalt í vatnið og hann lifir enn og við erum ekki frá því að hann sé bara aðeins hressari. Það er merkilegt hvað við fáum góða þjónustu í þessum dýrabúðum sem við höfum farið í, okkur er bent á ódýrari leið með hreinsibúnað, rétt flaska með meðali og sagt að nota einn tappa og skila henni svo! Að ég tali nú ekki um allar upplýsingarnar sem þeir gefa okkur í síma og þegar við höfum farið til að fá að vita hvað við þurfum að gera. Við erum náttúrulega frekar ryðguð í þessu fiskastandi þó svo að við hjónaleysin þekkjum fiksabúr frá því við vorum ung.......yngri!
Prinsinn fékk kort í dag frá Nöbbunni sinni og strákunum hennar. Mikið varð hann glaður og ekki síður vegna þess að í því stóð að Nabba hafi fundið lítinn transformerkarl handa honum. En transformer er eitthvað sem er í ægilegu uppáhaldi hjá honum þesa dagana.
Við erum að gæla við að fara austur á morgun að kíkja á bústaðinn okkar og sjá hvernig gengur með hann en við mæðginin höfum ekkert farið síðan í haust. Karlkvölin hefur nú verið með annan fótinn þarna í vetur og við fegnið fréttir um gang mála. Ég hef reyndar tilkynnt þeim sem nenna að hlusta á mig að þeg ætli ekkert að fara fyrr en bústaðurinn sé tilbúinn til "gistingar" en er auðvitað spennt fyrir því að kíkja á morgun......svona til að sjá hvenær ég geti farið að pakka!
Hann Lummi litli bróðir minn á afmæli í dag þ.e. 18.júlí og var frekar hress og kátur þegar ég hringdi í hann til að óska honum til hamingju með daginn. Mér skilst að rafmagnshlaupahjól sé á óskalistanum hans. Hann ætlaði jafnvel að kaupa sér það sjálfur þar sem allir eru hættir að gefa honum gjafir! Greyjið litla!
Prinsinn keypi sér rafmagnshlaupahjól í vikunni - hann safnaði fyirr því sjálfur. Honum langaði svo mikið í hjól að við sögðum honum að hann yrði þá að safna því sem uppá vantaði en hann átti c.a. helminginn. Við vorum alveg viss um að þetta yrði eitthvað sem hann myndi gleyma. En NEI, hann hljóp til og náði í "Línu veskið sitt" og haldið þið ekki að drengurinn hafi átt slatta af peningum þar, svo seldi hann flöskurnar sínar í Sorpu og átti fyrir hjólinu. Við gátum náttúrulega ekki annað en leyft honum að kaupa eitt stykki sem hann hefur óspart notað. Það er helst að það stoppi þegar þarf að hlaða hjólið. Hann þeysir á því um götuna, inni í stofu og úti á palli! En merkilegt nokk þá er hann bara frekar duglegur. Enda búinn að vera á hlaupahjóli síðan hann var rúmlega 3 ára. Ég verð nú að segja að þetta er alveg frábært tæki,væri alveg til í að eiga eitt stykki sjálf, en sem betur fer er hann góður við mömmu sína og leyfir mér að prófa. Hann passar sig líka á að vera með hjálm og olnbogahlífar á hjólinu.
Sæl að sinni