14.7.2008 | 13:58
Endurnýjuð kynni við Dverg
Í dag var fyrsti dagurinn á Stubbanámskeiði hjá Prinsinum. Hann var líka í fyrrasumar á Stubbanámskeiði en það er reiðnámskeið. Hann fékk núna sama hest og í fyrra - hann Dverg. Það var ákvaflega ánægður drengur, og góður með sig sem kom heim í dag og tilkynnti að hann hefði nú fengið að ríða einn, það var enginn sem hélt í tauminn. Svo bætti hann við "Mamma, þú hefðir nú aldrei leyft mér það"! .... ....mikið þekkir drengurinn vel móður sína.....móðursjúku!!
Í þessari viku fara farfulgarnir í fjölskyldunni að snúa heim á leið og birtast hver á eftir öðrum, okkur til mikillar gleði. Í dag koma Hvammstangirnar, seinna í vikunni kemur eldri sonurinn heim og í næstu koma loks Nabban og Co. Og svo verður síðast í mánuðinum allsherjar hittingur okkar systkinanna hjá stóra bróður og familí. Það verður líklega mikið fjör hjá frændunum að hittast en það munar nú um minna þegar 10 stykki af frændum koma saman.
Ég er ánægð með það að skoðanakönnunin á síðunni minni tók kipp og mér líður miklu betur að sjá að okkar familía er ekki sú eina sem fer ekki til útlanda í sumar. TAKK fyrir andlegan stuðning.
Kveð að sinni
12.7.2008 | 22:45
til útlanda í sumar?
Hurðu! ég var að spá.....það er skoðanakönnun á þessari síðu þar sem hægt er að svara nokkrum spurningum - ef þú sem ert að lesa þetta ert EKKI á leið/eða nýkominn frá útlöndum viltu vera svo væn/vænn að svara könnuninni. Það er nefnilega freeeekar fúllt að lesa að 100% svarenda eyða fríinu sínu utanlands......reyndar akkúrat núna ekki nema 5 búnir að svara....en mér þætti gott að sjá að það eru fleiri en ég sem eru ekki á leið út í sumar
Ég er búin að læra aðferðarfræði og veit að útkoman úr könnuninni verður ekki réttmæt - en einsog áður sagði - þá liði mér betur
TAKK TAKK
12.7.2008 | 21:44
Fiskar í söltum sjó!
Loksins erum við farin að setja inn myndir hér á síðuna. Það er ekki hægt annað en að nýta þann möguleika. Vonum bara að við endumst í þessum myndum, þurfum líklega að æfa okkur aðeins því þetta er ekki alveg að ganga einsog í sögu hjá okkur.
Það er búið að finna lausn á vandamálinu með marenstertuna í frystinum - það verður semsagt Tupperwarekynning hjá okkur á morgun. Karlkvölin lagðist nú samt eiginlega í rúmið þegar hann frétti það! Það var merkilegt nokk hægt að ná í fólk á kynninguna, á reyndar eftir að sjá hvernig mætingin verður, einhverjir voru með lélegar afsakanir einsog t.d. ég er í Kanada, ég er í Pittsburg, ég er í Svíþjóð og ein sagði ég er í Vestmannaeyjum! Merkilegt hvað fólki dettur í hug að segja til að sleppa að mæta á kynninguna.
Fiskarnir sem Prinsinn á fengu að synda í söltum sjó í kvöld. Við söltuðum þá sem sagt vel í kvöld, það ku gera þá ónæmari fyrir hvítblettaveiki sem er víst algeng. Við vigtuðum samviskusamlega 2 gr. af grófu Krónusalti á hvern líter og Prinsinn skellti öllu útí í einu.........þeir eru ENN lifandi! Það stendur til að fjölga aðeins hjá þeim og svo heyrðu hann af fiskamat sem STÆKKAR fiskana og það er náttúrulega á dagskrá hjá honum að verða sér úti um þannig fóður. Ég gleymdi alveg að segja að þeir eru reyndar bara fjórir núna - sá hvíti og rauði drapst í fyrradag, hann hefur líklega ekki verið svona rólegur og gáfulegur heldur var greyið veikur. Við vitum ekki hvað var að honum, fengum þær upplýsingar í fiskabúð að það væri nú frekra algengt að þeir dræpust greyin án þess að vitað væri af hverju. Prinsinn tók þessu bara vel - enda var okkur farið að gruna að fiskurinn væri ekki svona rólegur að ástæðulausu!
Fengum loksins tækifæri á að "tala" við Nöbbu og Co. í Ameríku í kvöld, við náðum þeim á msn-inu og allt gott var að frétta frá þeim. Við heyrðum einnig í stóra stráknum okkar í kvöld frá NY og allt gengur vel hjá þeim. Hann hefur ekki undan að taka við pökkum fyrir pabba sinn sem taka á með heim. Þetta fer að verða einsog þegar ég skrapp til NY og fékk einn pakka á dag - allt varahlutir í mótorhjól! Strákurinn er búinn að vera í þrjár vikur úti þannig að hann kemur líklega heim með hálft hjól í töskunni! Nabba og strákarnir hennar sáu víst forsetann í Washington í gær og drógu upp myndavélarnar einsog sannir túristar, það verður spennandi að sjá myndirnar sem settar verða inn á 2erni í kvöld.
Í heila viku höfum við mæðginin notið þess að sitja úti á palli og gera ekki neitt. En á óskalista Prinsins hefur verið bíóferð - Kung Fu panda - við höfum í hvert sinn þegar hann hefur beðið sagt við hann "þegar fer að rigna förum við í bíó" Í morgun vorum við vakin með miklum látum þegar hann kallaði "Mamma, pabbi, það er rignin úti, við förum þá í bíó" og var mikil gleði í rödd hans. Auðvitað gátum við ekki annað en drifið okkur. Ekki amalegt að vera vakin með svona miklum fögnuði yfir rigningunni! .......við samglöddumst honum eiginlega líka.
kveð að sinni
6.7.2008 | 20:20
Aðeins of langt síðan síðast!
Það er nú heilmargt búið að gerast síðan síðast var skrifað hér inn. Afmælistertan okkar heppnaðist svona líka svakalega vel Transformerkarlinn okkar rauði og svarti leit ljómandi vel út......nema hann var eiginlega svona frekar bleikur og grár!! En þegar kerti og blys voru kominn á hann voru litirnir aukaatriði. Ég hefði nú kanski átt að kíkja til hennar "fúlu á móti" en ég var svo viss um að hún væri í .....sturtu (smá einkahúmor okkar "fúlu") Gestir´nir í veislunni skemmtu sér konunglega en átu nú ekki mikið, þegar allir voru farnir voru enn til 3 tertur - mér er reyndar sagt að það sé ekki vegna þess að lítið hafi verið borðað heldur vegna þess að ég baka alltaf of mikið!
Prinsinn fékk fiskabúr frá okkur og auðvitað fiska sem hann valdi sjálfur. Nú erum við með þrjá gullfiska, eina ryksugu og einn bardagafisk. Gullfiskarnir eru mis gáfaðir, þessi svarti er freeeekar vitlaus en fallegur og hann gaf mömmu sinni og pabba hann! Sá appelsínu guli er mun gáfaðri og þessi hvíti og rauði er sá algáfaðasti - ef hægt er að tala um gáfur hjá gullfiskum. Bardagafiskurinn er sá lang flottasti við vonum bara að sambúðin gangi áfram vel. Ryksugan sem hann Jakob á er alltaf í felum - helst í apahauskúpunni sem Hekla og Skúli gáfu prinsinum í afmælisgjöf.
Klifurmúsin og forsetinn hennar stoppuðu stutt um daginn hjá okkur en mikið var gaman að hafa þau. Augnlæknirinn skrifaði uppá ný gleraugu handa báðum - sem kom engum á óvart ....nema kanski þeim sjálfum Svo komu Netta og Jakob í smá heimsókn áður en þau skelltu sér á landsmót og aftur er von á þeim í kvöld ef umferðin gengur eitthvað - þau koma líklega frekar seint og bruna svo áfram í menninguna á morgun.
Við mæðginin erum komin í sumarfrí og hlakkar ekkert smá til að vakna á morgun -þegar okkur langar til. Enginn leikskóli framar hjá prinsinum þar sem hann er að fara í 1.bekk. Mamma hans verður líklega áfram í einhver ár á leikskóla - þar til hún ákveður hvað hún ætlar að verða þegar hún er orðin stór! Kralkvölin fer svo í fríið sitt um næstu helgi og þá munum við leggja enn frekari drög að áætlunum okkar með sumarfríið - kíkja á spánna og svona. Við vorum nefnilega með það á 15 ára áætluninni að mála húsið og ef við gerum það ekki í sumar þá fer það verk á 20 ára áætlunina og við erum ekki alveg að nenna því að hafa það hangandi yfir okkur mikið lengur. Við gerum því öfugt við flesta þ.e. ef spáir rigningu förum við í útilegu en ef spáir sól verðum við heima að mála!
Við kíkjum annað slagið á 2erni og eru þau eitthvað löt við að skrifa frá Kanada en við heyrðum að í garðinum hjá þeim væri sirkus og að þau hefðu farið í dýragarð, sáum svo á myndum að þau fóru upp í CN turninn. Þannig að það er kanski ekki skrítið að þau nenni ekki að sitja inni að skrifa fréttir. Enda heyrum við þetta líklega allt þegar þau koma heim.
Það styttist í að eldri sonurinn snúi heim frá NY líklega um 10 dagar þar til hann kemur. Vona að afabróðir hans verði ekki orðinn alveg uppgefinn á þeim tveim frændunum. Hann hefur hringt 3-4 sinnum í okkur - aðallega til að láta millifæra á sig, og greyið fær alltaf fyrirlestur um leið um sparnað. En hann lætur það ekkert á sig fá og heldur ótrauður áfram að eyða. Reyndar eru þetta ekki miklar upphæðir og hann á þessa aura sjálfur þannig að það er s.s. ekki okkar mál í hvað hann eyðir þeim. Við gleymum bara stundum að hann er ekkert barn lengur. Við vorum bæði flutt að heiman á hans aldri og vorum svo MIKLU fullorðnari en hann
Sæl að sinni
23.6.2008 | 23:26
Skreytingarmeistarar!
Við mæðginin höfum legið yfir myndum af afmælistertum á netinu til að fá hugmyndir að tertunni okkar fyrir afmælið hjá prinsinum. Við fundum loksins í dag flotta transformer tertu sem hugmyndin er að gera að aðaltertunni í partýinu. Verst bara að flestir sem við erum búin að tala við eru á leið í ferðalag. En svona er þetta víst hjá mörgum sem eiga afmæli yfir sumartímann. Við látum afboð ekkert á okkur fá og halda skal fína veislu. Hún Villa okkar sem gerði agalega fína tertu í fyrra er farin að vinna á kaffihúsi fyrir austan. Það hefur líklega sprust út að hún sé snillingur í sjóræningjatertum þannig að við verðum víst að gera okkar sjálf. Verst er bara að prinsinn hefur ekki nefnt að honum langi í það sem okkur langar til að gefa honum! Okkur langar nefnilega alveg rooosalega mikið í "umhverfisslys" (trampolín) í garðinn.....en honum langar í fiska og transformer. Karlkvölin ætlar því að kíkja á fiskabúr á morgun áður er hann fer að leita að svörtum matarlit! Klifurmúsin og forsetinn hennar eru á leið úr menningunni hingað suður og okkur hlakkar rosalega mikið til. Þau ætla reyndar að stoppa stutt þar sem þau eru á leið í ferðalag - en við þökkum auðmjúk allan þann tíma sem þau gefa sér til að hitta okkur ......við verðum reyndar slatta af sumarfríinu okkar fyrir norðan í menningunni þannig að allir verða búnir að fá nóg af öllum þegar sumarið er búið. Reyndar var litli frændi nærri búinn að breyta þeim plönum um helgina þegar hann reyndi að brenna kofa kóngsins en frændi var að hjálpa mömmu sinni og ætlaði að hita sléttujárnið sem hún hafði lagt frá sér á eldavélina. Reyndar er það ekkert skrýtið þar sem það lá ofaná hellunni á Rafha-vélinni og sá litli veit líklega að það á að vera heitt!!
Við mæðginin hjóluðum EKKI í dag en planið er að skella sér á fákana á morgun og halda áfram bensín sparnaði. Merkilegt hvað mér þótti ég léleg að hjóla ekki í dag - þó svo ég hafi ekki hjólað í marga daga - en strax farin að fá smá samviskubit
Sæl að sinni
21.6.2008 | 01:07
Skrapp vestur með fleirum
Í gær skrapp ég vestur, við vorum 13 sem fórum í vinnuferð og skoðunarferð tengdri vinnunni. Þetta var alveg frábær ferð - gaman að sjá, skoða og fá góðar hugmyndir að ógleymdu því að sjá að maður hefur það nú bara þokkalega gott á sínum vinnustað Í gærkvöldi endaði kvöldmaturinn á því að farið var að spá í bolla fyrir liðið. Hæfleikar spámanna voru mismiklir. Ég sé að þetta er alveg eitthvað sem ég er að fíla - þ.e. að spá í bolla. Ég bíð spennt eftir að sjá hvort spárnar rætist ekki hjá fólkinu. Áhugasamir ættu endilega að hafa samband við mig þar sem ég tel mig hafa mikla kaffibolla-spádómshæfileika
Þegar við vorum að fara að borða sáum við að grunur væri um að 3.björninn væri á Hveravöllum! Auðvitað var mér strax hugsað til bróður míns þegar ég heyrði að björgunarsveitir væru að leita að birninum. Heyrði svo í mágkonu minni í dag þar sem hún var að kvarta yfir því að ekki fengi hún ísbjarnarpels um næstu jól - í staðinn ætti hún fjall af hrossabjúgum. Ég hefði alveg viljað sjá ferðamennina á Hveravöllum þegar björgunarsveitin Húnar mætti á svæðið þar sem merkið þeirra er ísbjörn. Ætli þeir hafi ekki talið að þarna væru komnir þeir menn sem sérhæfa sig í ísbjörnum á landinu
Kveð að sinni
18.6.2008 | 22:06
NY farinn okkar!
Jæja þá er eldri sonurinn lagður í hann í mánaðarferð til USA. Skilst að hann og félagi hans ætli að vera sem mest í NY -en jafnvel kíkja til Boston og Wasington. Í dag þegar ég taldi að þeir væru rétt lagðir af stað var hringt í mig og án þess að heilsa var bunað út úr sér "Ertu með lykil heima? Ég gleymdi farmiðanum mínum?" .......ætli ferðin gangi samt ekki vel hjá þeim ! ! Ég hélt að hlaupin eld-snemma í morgun þegar farið var á BSÍ til að sækja myndavélina hefði verið stressið í undirbúningnum! En það er gott að vera ungur og hæfilega kærulaus.
Prinsinn heldur mér alveg við efnið - með að hjóla í vinnuna. Það er ekki til að tala um að fara keyrandi í leikskólana okkar. Þetta er bara alveg ljómandi gott fyrir mann að hjóla svona -þó það sé ekki nema c.a. 25-30 mín. pr. dag. Ég er nú samt smá fegin að vera að fara vestur á morgun - í flugvél og það er ekki möguleiki að ég hjóli útá völl þannig að ég þarf ekki að hjóla nema tvo daga í þessari viku í vinnuna. Tek bara meira á um helgina, hjólum kanski til R.víkur en það hefur verið á dagskrá að leyfa prinsinum að prófa það, hann hefur endalausa "hjólaorku" þannig að við hjónaleysin höfum aðallega áhyggjur af að nenna ekki sjálf að hjóla heim - engar af prinsinum!......má ekki taka hjól með í strætó - mig minnir það.
kveð að sinni
18.6.2008 | 00:26
Var að lesa okursíðu Dr.Gunna
Ég tek mig stundum til og les síðuna hans Dr.Gunna. Ég hef nú ekki mikið verið að bera saman verð -veit bara að karfan mín í Bónus er venjulega aðeins ódýrari en í Krónunni og að karfan mín í Hagkaup er mun dýrari en í fyrrnefndum búðum. Ég veit jafn vel að úrvalið í Hagkaup er meira og ég freistast frekar. Þegar ég er að kaupa fyrir tengdó í Bónus er þeirra fulli haldapoki meira en helmingi ódýrari en minn fulli poki - samt er bara matur í pokunum!! Líklega verð ég að verða aðeins meðvitaðri um neysluvenjur mínar og minna manna. Annars er ég víst annálaður nískupúki (samkv. litlu sys) Þegar gera á vel við heimilisfólkið skellum við okkur stundum í Nóatún til að kaupa gott kjöt á grillið. Síðasta laugardag var t.d. keypt þar afskaplega gott lambakjöt og karlkvölin skellti sér á strútakjöt -sem ég veit AF AFSPURN að er gott kjöt. Ég treysti mér ekki í það þar sem ég er ekki nýjungagjörn kona. En prinsinn fékk í tilefni dagsins (laugardagur=nammidagur) að kaupa sér kleinuhring í Nóatúni og þar sem hann á það til að sulla súkkulaði um allt andlitið þá báðum við um tissjú á kassanum - jú það var sko til - við fengum eitt bréf.....en.....þegar það heyrðist "píp" í kassanum þegar hún rétti okkur bréfið spurði ég " ertu að selja okkur bréf af tissjú" Jú, jú hún var að því og það kostaði kr. 15!! Sem meðvitaður neytandi afþakkaði ég bréfið og súkkulaðinu var þurrkað í peysuna - sem var hvort eð er orðin lúin eftir daginn. Reyndar verð ég að segja alveg satt og rétt frá - tissjúið var í poka undan hnífapörum EN það vantaði hnífapörin í - ég hefði e.t.v. keypt plasthnífapör og tissjúbréf á 15.kr. en þegar eitt bréf er selt á 15.kr (og kanski var búið að selja hnífapörin áður á 15.kr. ) þá fannst mér verið að okra á mér. Daginn eftir þá fórum við og keyptum ís í Snælandi - ég tók mér TVÖ tissjúbréf = eitt fyrir ísinn og eitt fyrir næsta kleinuhring
17.6.2008 | 22:44
17.júní 2008
Nonninn hans Lumma kom í heimsókn til okkar í dag. Við skelltum okkur á hátíðarhöldin á reið- og hlaupahjólum því að einsog allir erum við að spara bensínið Prinsinn tróð upp ásamt félögum af leikskólanum sínum - og stóðu sig allir vel. Við sviðið voru stoltir foreldrar með myndavélar í röðum svo að atburðurinn yrði nú vel geymdur. Prinsinn var ekki sá eini í familíunni sem tróð upp því frænka hans var fjallkona fyrir austan. Eftir að hafa leikið sér í öllum leiktækjunum sem skátarnir settu upp og borðað nokkur kíló af sælgæti áttu frændurnir enn eftir mikla orku til að leika sér á hjólabrettapallinum á leiðinni heim. Það voru þó þreyttir og sælir frændur sem settust niður að spila er heim var komið .......í c.a. 5 mín!!!!! En þá voru þeir hlaðnir orku að nýju og fóru úr í vatnsslag með stóra bróður!! Sá er á leið til NY á morgun, búinn að losna við spangirnar -sæll og glaður með það. Það var fleira merkilegt sem gerðist í dag því að mamma og pabbi tóku ömmu með sér í sund en hún hefur ekki skellt sér í sund í fjölda ára. Þegar við komum heim þá var grilluð nautasteik í matinn -nokkur konar kveðjumáltíð fyrir NY farann því að við sjáum hann ekki fyrr en eftir mánuð. Það er þó gott að vita að núna fær hann að gista hjá afabróður sínum og litla sys fer bráðum út og mun líta á piltinn fyrir okkur. Það hefur nefnilega aldrei þurft að kvarta yfir því að drengurinn sé of mikið að láta í sér heyra. Eins er síminn hans óþarflega oft batterís - eða innistæðulaus!
Sundgarpurinn okkar er alsæll með námskeiðið sitt hjá Urði urtu og Kobba krókudíl og bíður spenntur eftir að fara á leikskólann því að þá fer hann á námskeiðið. Veit samt ekki alveg hvort það sé vegna þess að hann fékk frí um daginn þegar hann fór í sveitina eða að hann sé á sundnámskeið eða þá að það sé vegna þess að við förum hjólandi í leikskólann sem gerir það áhugaverðara að vakna á morgnana! Það er allavega allt annað líf hér á morgnana að fara í leikskólann þessa dagana. Okkur hlakkar eiginlega til að vakna þessa dagana. Það er nú kanski líka sumarið sem gerir það?
Kveð að sinni
8.6.2008 | 18:27
Sunnurdagurinn 8.júní
Í dag komu Kelarnir okkar frá Selfossi í heimsókn og einn leikskólavinur prinsins að ógleymdum litla frænda okkar. Þannig að prinsinn dreif sig í að baka súkkulaðiköku ofaní liðið sem rann frekar ljúft niður eftir að allir fengu sér ristað brauð. Dagurinn hefur svo farið í fótbolta, trampolínhopp, leikvallaferð, hjólbrettaferð, ís-át og sápukúlublástur. Þess á milli hef ég ráðist á þvottafjallið okkar og komist frekar langt með það - allar snúrur uppteknar og þurrkarinn á yfirsnúning.
Karlkvölin er að horfa á Formúluna og leiðin liggur svo í sund með þá sem enn eru hér í heimsókn þ.e. Kelana og prinsinn. Á meðan er ég að hugsa um að elda kvöldmat því að sundferðir gera mína menn freeeekar svanga. Prinsinn byrjar svo á sundnámskeiði á morgun og er mjög spenntur enda þetta eitt af því skemmtilegast sem hann gerir......úpps.....ég var að líta á klukkuna! Ætla ég drífi mig ekki í að elda matinn núna - og sendi þá svo í sund.
Kveð að sinni